Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 6618/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og vísaði til fjölmiðlaumfjöllunar um kvörtun sem var til meðferðar hjá umboðsmanni yfir verðtryggingu lána á íslenskum neytendamarkaði. Í erindi A kom fram að hann teldi rétt að málið yrði skoðað í víðara samhengi og óskaði þess að umboðsmaður tæki til athugunar hvort lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, stæðust stjórnlög, einkum eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður tók fram að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu við stjórnarskrá. Þá væri ekki hægt að kvarta beinlínis vegna meinbuga sem fólk teldi vera á lögum heldur ákvæði umboðsmaður að eigin frumkvæði hvort hann nýtti heimild sína til að vekja athygli Alþingis á slíku. Umboðsmaður taldi ekki skilyrði að lögum til að fjalla um kvörtunina og lauk athugun sinni á málinu.