Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 6613/2011)

A kvartaði yfir frumvarpi til nýrra umferðarlaga er innanríkisráðherra lagði fram á á 139. löggjafarþingi.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti á að starfssvið hans tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til mundi takast um löggjöf sem Alþingi hefði í hyggju að setja. Umboðsmanni væri heimilt að tilkynna Alþingi ef hann yrði var meinbuga á gildandi lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, en ekki væri hægt að kvarta yfir slíku þótt vitanlega væri öllum frjálst að koma á framfæri ábendingu um slík atriði. Að því er varðaði athugasemdir A um samráð við undirbúning frumvarpsins þá fékk umboðsmaður ekki séð að lög mæltu fyrir um slíkt samráð eða hvernig það skyldi fara fram, og þar með um rétt einstakra borgara til þátttöku eða svara í slíku samráðsferli. Hann taldi því ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um þann þátt í kvörtuninni. Að lokum tók umboðsmaður fram að ef kvörtun A beindist að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds ríkis eða sveitarfélaga, teldi hann rétt að A sendi sér nýja kvörtun þar sem gerð væri skýr grein fyrir þeirri úrlausn eða háttsemi, ásamt viðeigandi fylgigögnum.