Samgöngumál.

(Mál nr. 6586/2011)

A kvartaði yfir gjaldtöku Fluglækningastofnunar fyrir útgáfu læknisvottorða vegna endurnýjunar á flugskírteini fisflugmanns en gjald fyrir útgáfu sams konar læknisvottorðs væri mun lægra á Ísafirði og Akureyri. Í erindinu kom m.a. fram að A færi fram á að heimilislæknar gætu gefið út slík læknisvottorð.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindi A með bréfi, dags. 30. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður gerði stutta grein fyrir ákvæðum loftferðalaga og reglugerðum settum samkvæmt þeim og taldi ljóst að samkvæmt gildandi lögum væri ekki gert ráð fyrir að heimilislæknar, sem ekki hefðu hlotið samþykki Flugmálastjórnar Íslands sem fluglæknar á grundvelli þjálfunar og þekkingar í fluglæknisfræði, gætu kannað heilsufar vegna útgáfu eða endurnýjunar á skírteini fisflugmanns. Umboðsmaður taldi kvörtunina því að hluta lúta að atriði sem löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið afstöðu til og því brystu skilyrði til þess að þetta atriði yrði tekið til frekari athugunar, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A leitaði afstöðu Flugmálastjórnar Íslands til gjaldtöku Fluglækningastofnunar og eftir atvikum gæti hann síðan leitað til innanríkisráðuneytisins, sem fer með yfirstjórn málaflokksins, sbr. 7. tölul. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 177/2007, en teldi hann sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn þeirra stjórnvalda gæti hann leitað til sín á ný.