Lífeyrismál. Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Staðfesting reglugerðar. Birting staðfestra reglugerða. Jafnræðisregla. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 1014/1994 og 1015/1994)


A kvartaði yfir yfir því, að vextir hefðu verið hækkaðir á skuldabréfum sem Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands var kröfuhafi að. Þá kvartaði A yfir ýmsum atriðum sem lutu að skipan sjóðsins og reglugerð um hann, einkum að ekki hefði verið skipuð stjórn fyrir sjóðinn þrátt fyrir lagafyrirmæli, að reglugerð fyrir sjóðinn hefði hvorki verið staðfest af fjármálaráðuneytinu né birt í B-deild Stjórnartíðinda, að þeirrar lagaskyldu hefði ekki verið gætt að endurskoða reglugerð fyrir sjóðinn og loks, að 6. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, mismunaði mönnum með ólögmætum hætti.
Að því er laut að fyrsta lið í kvörtun A, um hækkun vaxta af skuldabréfum, byggði A á því að ákvörðunin hefði ekki verið tekin af bærum aðila, þar sem ekki hefði verið skipuð stjórn fyrir sjóðinn. Þá hélt A því fram að ekki hefðu verið efnislegar forsendur til að hækka vexti og að mönnum hefði verið mismunað við ákvörðun vaxta. Í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns í júni 1995, lýsti stjórn sjóðsins, sem þá hafði verið skipuð, því, að misbrestur hefði orðið á því að samræmis hefði verið gætt við breytingar á vöxtum og voru vextir á skuldabréfi A lækkaðir til samræmis við vexti á öðrum skuldabréfum. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til frekari afskipta af þessum þætti í kvörtun A, og tók fram, að ekki væri í álitinu tekin afstaða til hugsanlegs endurkröfuréttar A vegna þegar greiddra vaxta.
Um þann drátt sem varð á því að starfhæfri stjórn væri komið á komu fram misvísandi skýringar frá viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Umboðsmaður benti á forræðishlutverk fjármálaráðuneytisins á málefnum sjóðsins samkvæmt lögum nr. 7/1987 og það hlutverk ráðuneytisins að fara með stjórn lífeyrismála, og taldi að fjármálaráðuneytið hefði átt að sjá til þess að málefnum sjóðsins væri stýrt af sjóðstjórn, svo sem lögskylt væri. Taldi umboðsmaður að óhæfilegur dráttur hefði orðið á skipun sjóðstjórnar, en þar sem loks hafði verið gengið frá skipun stjórnar, taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þennan þátt.
Kvörtun A laut í þriðja lagi að því, að reglugerð fyrir sjóðinn hefði hvorki verið staðfest af fjármálaráðuneytinu né birt í B-deild Stjórnartíðinda. Niðurstaða umboðsmanns var, að samkvæmt lögum væri fjármálaráðuneytinu skylt að staðfesta reglugerðir fyrir lífeyrissjóði og gæta þess við þá staðfestingu að ákvæði þeirra væru í samræmi við lög og aðrar réttarreglur. Það fælist því veigamikill öryggisþáttur í skipan og starfsemi lífeyriskerfisins í staðfestingu ráðuneytisins á reglugerðum lífeyrissjóða, sem fjármálaráðuneytið bæri stjórnarfarslega ábyrgð á. Taldi umboðsmaður aðfinnsluvert að staðfesting reglugerðarinnar fórst fyrir og beindi þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að sjá til þess framvegis að lífeyrissjóðir störfuðu samkvæmt staðfestum reglugerðum. Þá benti umboðsmaður á, að samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, með síðari breytingum, bæri að birta slíkar reglugerðir í B-deild Stjórnartíðinda. Þar sem fjármálaráðuneytið hafði staðfest reglugerð fyrir sjóðinn hinn 6. desember 1994, taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugasemda í tilefni af þessum þætti í kvörtun A, að öðru leyti en því, er laut að endurskoðun reglugerðarinnar og frágangi.
Endurskoðun reglugerðar fyrir sjóðinn tók hátt á áttunda ár frá gildistöku laga nr. 7/1987 og var sá dráttur á meðferð málsins ekki réttlættur. Þá taldi umboðsmaður ekki hjá því komist að gera athugasemdir við frágang reglugerðarinnar, en í henni var vísað til fyrri reglugerðar frá 1983 um nokkur atriði, m.a. um réttindi sjóðfélaga, og var sú reglugerð látin fylgja endurskoðaðri reglugerð sem viðauki, ásamt 6. gr. laga nr. 7/1987 sem einnig fylgdi reglugerðinni sem viðauki. Taldi umboðsmaður, að frágangur hinnar endurskoðuðu reglugerðar hefði ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og beindi þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að ráða bót á þessu.
Um þá meintu mismunun, sem A taldi felast í ákvæðum reglugerðarinnar frá 1983, og voru tekin upp í hina endurskoðuðu reglugerð og þannig staðfest af fjármálaráðuneytinu í desember 1994, tók umboðsmaður fram að enda þótt þessi ákvæði hefðu á sínum tíma verið sniðin eftir sambærilegum ákvæðum í reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans hefði hinum síðargreindu ákvæðum verið breytt verulega á árinu 1988. Taldi umboðsmaður, að ráðuneytinu hefði borið að kanna það sérstaklega hvort þessar breytingar gæfu tilefni til endurskoðunar ákvæðanna í reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbankans.
Um þann þátt í kvörtun A sem laut að ákvæði 6. gr. laga nr. 7/1987, tók umboðsmaður fram að það félli utan starfssviðs hans að fjalla um löggjafarstarf Alþingis. Væri því ekki tilefni til að hann fjallaði um þennan þátt í kvörtun A.

I.

Hinn 14. febrúar 1994 leitaði til mín A. A kvartaði yfir því, að vextir hefðu verið hækkaðir á skuldabréfum, sem Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands væri kröfuhafi að. Benti A meðal annars á, að samkvæmt ákvæðum bréfanna væri stjórn sjóðsins ein bær að lögum til að taka ákvörðun um slíka hækkun. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu hefði aldrei verið gengið endanlega frá skipun stjórnar og því hafi engin virk stjórn farið með mál sjóðsins. Sama dag bar A einnig fram aðra kvörtun vegna ýmissa atriða, er snertu reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, sem tók gildi 1. janúar 1983. Sem meginatriði kvörtunarinnar tilgreindi A það, að reglugerð sú, sem eftirlaunasjóðurinn virtist starfa eftir og verið hefði í gildi frá 1. janúar 1983, hefði ekki verið staðfest af ráðherra. Hefði reglugerðin aldrei verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og gæti því ekki haft lagagildi, sbr. 7. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Þá mismunaði reglugerðin mönnum með ólögmætum hætti, þannig að þeir, sem greitt hefðu skemur en í 6 ár í eftirlaunasjóðinn, fengju engan lífeyrisrétt. Þeir, sem hefðu greitt skemur en í 15 ár í sjóðinn en lengur en í 6 ár, fengju einungis óverðtryggðan lífeyrisrétt, en aðeins þeir, sem greitt hefðu lengur en í 15 ár, fengju verðtryggðan lífeyrisrétt. Þá hefði reglugerð, sem mælt væri fyrir um í 6. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, ekki verið sett enda þótt skýr lagaskylda stæði til þess og fjármálaráðuneytið hefði boðað setningu hennar í desember 1993, sbr. bréf fjármálaráðuneytisins til mín frá 26. nóvember 1993 (sbr. II. kafla hér á eftir). Loks kom fram í kvörtun A, að hann teldi að ákvæði 6. gr. laga nr. 7/1987 mismunaði mönnum með ólögmætum hætti með því að það fæli í sér, að skyldur ríkissjóðs við þá starfsmenn, sem skylt væri að endurráða, yrðu meiri en skyldur gagnvart þeim, sem eigi væri skylt að endurráða og voru ekki endurráðnir hjá hlutafélagsbanka, sbr. 1. gr. laganna. Gæti þessi mismunun eigi staðist með tilliti til jafnræðisreglna stjórnskipunarréttar.



II.

Forsaga ofangreindra kvartana A er sú, að hinn 13. apríl 1993 bar hann fram við mig kvörtun yfir því, að honum hefðu ekki borist svör frá viðskiptaráðuneytinu við bréfi hans frá 15. apríl 1991, en það bréf snerti lífeyrisréttindi hans hjá Eftirlaunasjóði starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Með bréfi, dags. 14. apríl 1993, er ítrekað var 12. júlí 1993, óskaði ég með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, eftir upplýsingum um, hvað liði afgreiðslu viðskiptaráðuneytisins á ofangreindu erindi A. Svar viðskiptaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 27. ágúst 1993. Kom þar fram, að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga nr. 7/1987 hefði ekki verið sett ný reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, en búist væri við því að fjármálaráðuneytið staðfesti á næstunni nýja reglugerð fyrir eftirlaunasjóðinn. Þá segir í bréfi ráðuneytisins að "...í raun hefur engin virk stjórn verið fyrir eftirlaunasjóðinn á síðustu misserum..." og að "Ný stjórn mun verða skipuð fyrir sjóðinn um leið og staðfesting reglugerðarinnar liggur fyrir að því er [...] lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu hefur upplýst".

Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum ritaði ég fjármálaráðuneytinu bréf hinn 5. október 1993, er ég ítrekaði hinn 18. nóvember 1993, og óskaði með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, eftir því, að fjármálaráðuneytið veitti mér upplýsingar um, hvað liði staðfestingu þess á umræddri reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, og upplýsingar um, hvernig stjórn sjóðsins væri háttað. Svar fjármálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 26. nóvember 1993. Segir þar meðal annars:



"... á árinu 1987 var fulltrúi ráðuneytisins tilnefndur í stjórnina í samræmi við 6. gr. laga nr. 7/1987 og sendi þá tilnefningu til sjóðsins sem þá var vistaður hjá Útvegsbanka Íslands hf. Hins vegar virðist aldrei hafa verið gengið endanlega frá skipan stjórnarinnar og er það því rétt sem fram kemur í bréfi viðskiptaráðuneytisins að engin virk stjórn hefur verið í sjóðnum á síðustu árum.

... eins og fram kemur í bréfi viðskiptaráðuneytisins frestaði ráðuneytið staðfestingu á reglugerð þeirri sem nefndin samdi vegna athugasemda tryggingafræðings sem fékk hana til umsagnar. Þegar mál þetta var tekið upp að nýju fyrr á þessu ári leitaði ráðuneytið aftur eftir umsögn sama tryggingafræðings og var þá skoðun hans enn sú að ekki væri rétt að staðfesta reglugerðina óbreytta. Ráðuneytið hefur því að undanförnu unnið að nýrri reglugerð og væntir ráðuneytið þess að þeirri vinnu ljúki fljótlega þannig að unnt sé að staðfesta nýja reglugerð fyrir sjóðinn nú í desembermánuði og skipa nýja stjórn í framhaldi af því."



Með bréfi, dags. 16. desember 1993, lauk ég þessu máli A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.





III.

Hinn 17. febrúar 1994 ritaði ég fjármálaráðherra bréf vegna þeirra tveggja kvartana A, er greinir í I. kafla. Óskaði ég þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að fjármálaráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvartananna og léti mér í té gögn þau, er málin snertu. Ósk þessa ítrekaði ég við ráðuneytið með bréfum, dags. 19. apríl, 27. maí og 23. júní 1994. Hinn 6. júlí 1994 barst mér bréf frá fjármálaráðuneytinu, þar sem fram kom, að svar ráðuneytisins hefði dregist, þar sem það væri að afla upplýsinga frá aðilum, er þekkt hefðu til starfsemi sjóðsins á þeim tíma, sem Útvegsbankinn hefði starfað, en að fengnum þeim upplýsingum myndi ráðuneytið svara erindinu.

Hinn 3. nóvember 1994 ritaði ég fjármálaráðuneytinu bréf á ný og óskaði með vísan til fyrri bréfa og svars fjármálaráðuneytisins frá 6. júlí 1994, sbr. einnig símtal starfsmanns míns við starfsmann fjármálaráðuneytisins hinn 26. september 1994, eftir því, að ráðuneytið léti mér í té gögn og skýrði viðhorf sitt til þeirra tveggja kvartana, sem A hefði borið fram. Svar fjármálaráðuneytisins, dags. 31. október 1994, barst mér 8. nóvember 1994. Þar segir:



"[A] mun hafa hafið störf í Útvegsbanka Íslands á árinu 1977 og starfað þar allt til þess tíma er bankinn var lagður niður. Honum var boðin endurráðning hjá Útvegsbanka Íslands hf. sem útibússtjóri í [X] en hafnaði því boði.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélags um Útvegsbanka Íslands skyldi ríkissjóður yfirtaka ábyrgð Útvegsbanka Íslands á skuldbindingum eftirlaunasjóðsins sem stofnast myndu fram að yfirtökudegi.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sömu laga skyldu starfsmenn Útvegsbankans sem tóku við starfi hjá hlutafélagsbanka ekki fá lakari eftirlaunarétt en þeir hefðu fengið samkvæmt ákvæðum reglugerðar Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbankans (E.S.Ú.Í.) sem í gildi er á yfirtökudegi. Skal greiðslum vegna þessa þáttar skipt milli ríkissjóðs og hlutafélagsbanka í hlutfalli við starfstíma á hvorum stað um sig.



Kvörtun 1014/1994.

Í fyrri kvörtuninni (1014/1994) er kvartað yfir því að stjórn sjóðsins hafi ekki verið skipuð og að teknar hafa verið ákvarðanir um vexti án þess að stjórn sjóðsins hafi verið skipuð.

Í stjórn sjóðsins var gerð almenn bókun þann 6. júní 1984 um breytingu á vaxtakjörum hjá þeim starfsmönnum sem hættu hjá bankanum og kemur þessi ákvörðun fram í skilmálum skuldabréfsins. Þetta mun hafa verið framkvæmt þannig að þegar einhver starfsmaður lét af störfum tilkynnti starfsmannahald bankans skuldabréfadeild hans það sem síðan gekk frá vaxtabreytingunni. Það var því aldrei um það að ræða að tekin væri ákvörðun í stjórninni um hækkun vaxta í hvert sinn sem einhver starfsmaður lét af störfum heldur var ákvörðunin almenns eðlis og tók til allra sem eins var ástatt um. Hækkun vaxta á láni [A] var byggð á þessari almennu ákvörðun sem tekin var í stjórn sjóðsins á meðan bankinn var enn starfræktur og hlýtur að standa meðan henni hefur ekki verið breytt. Hún hefur því ekkert með núverandi skipan stjórnarinnar að gera.

Ákvæðið í skuldabréfinu um vaxtahækkunina er ekki bundið við það að menn hætti með tilteknum hætti. Verður því ekki séð að sú staðreynd að menn hættu störfum í tengslum við það að bankinn var lagður niður eigi að breyta neinu fyrir beitingu þessa ákvæðis sérstaklega í ljósi þess að í 5. og 6. gr. laga nr. 7/1987 eru fyrrverandi starfsmönnum Útvegsbankans tryggð ákveðin réttindi við stofnun hlutafélagsbankans svo sem varðandi ráðningu hjá hlutafélagsbankanum og lífeyrisréttindi. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um annað en að vextir á lánum hafi verið hækkaðir hjá öllum þeim sem hættu störfum hjá bankanum þegar hann var lagður niður og ekki tóku við starfi hjá hlutafélagabanka. Sömu reglum hefur því verið beitt um alla þá sem eins stóð á um.

Að því er varðar þá kvörtun [A] að stjórn hafi ekki verið skipuð vísast til bréfs ráðuneytisins frá 26. nóvember 1993 þar sem gerð er grein fyrir þessu atriði eins og þar kemur fram var ætlunin að skipa nýja stjórn sjóðsins í beinu framhaldi af setningu nýrrar reglugerðar fyrir sjóðinn enda val stjórnar tengt útgáfu nýrrar reglugerðar sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987. Sú reglugerð hefur enn ekki verið sett, sbr. hér síðar og hefur því stjórnin ekki verið skipuð.



Kvörtun 1015/1994.

Í seinni kvörtuninni (1015/1994) er í fyrsta lagi kvartað yfir því að reglugerðin sem nú er starfað eftir, þ.e. reglugerðin frá 1. janúar 1983, hafi ekki verið staðfest af ráðherra og hún hafi aldrei verið birt í B-deild stjórnartíðinda.

Það er rétt að reglugerðin var ekki staðfest af fjármálaráðuneytinu í samræmi við ákvæði laga nr. 55/1980 en engu síður er ljóst að þetta er sú reglugerð sem sjóðurinn starfaði eftir á þeim tíma er bankinn var lagður niður. Ráðuneytið telur að þetta sé sú reglugerð sem átt er við í lögunum og að réttindi þau sem fyrrverandi starfsmönnum Útvegsbankans eru tryggð með 6. gr. laga nr. 7/1987 eigi að miðast við þá reglugerð. Ráðuneytið lítur svo á að í tilviki því sem hér um ræðir skipti það ekki máli fyrir gildi reglugerðarinnar þótt hún hafi ekki verið staðfest af ráðuneytinu. Ráðuneytið staðfestir reglugerðir lífeyrissjóða bæði í heild sinni og breytingar á þeim skv. 2. gr. laga nr. 55/1980, um skyldutryggingar lífeyrisréttinda ofl. Það hefur hins vegar aldrei tíðkast að þessar reglugerðir séu birtar í B-deild stjórnartíðinda.

Í öðru lagi er kvartað yfir því að reglugerðin mismuni mönnum með ólögmætum hætti. Reglugerð sú sem hér um ræðir er undirrituð af allri stjórninni, þ. á m. fulltrúa sjóðsfélaga í henni. Þegar bankinn var starfræktur var það venja að breyta reglugerð sjóðsins til samræmis við reglugerð eftirlaunasjóðs Landsbankans og með reglugerðinni frá 1983 var verið að gera eina slíka breytingu. Reglugerðin á því ekki rót sína að rekja til stjórnsýslu ríkisins, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Ráðuneytið vill hins vegar taka fram að það telur reglugerðina ekki mismuna mönnum með ólögmætum hætti enda eru reglurnar þær sömu fyrir alla sem eins er ástatt um. Ekkert er óeðlilegt við það að gerðar séu kröfur í reglugerð sem þessari um að menn vinni sér ekki inn tiltekin réttindi fyrr en eftir ákveðinn tíma og slíkt getur ekki talist ólögmætt. Slík ákvæði eru bæði í reglugerðum annarra sjóða og í lögum, sbr. t.d. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá er þess að gæta að lífeyrisréttindin voru hluti af ráðningarkjörum [A] og annarra starfsmanna Útvegsbankans og af þeim kjörum er hann bundinn.

Í fjórða lagi er kvartað yfir því að reglugerð fyrir sjóðinn hafi ekki verið sett. Til viðbótar því sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins frá 26. nóvember 1993 skal þess getið að þegar ráðuneytið taldi reglugerðina tilbúna til staðfestingar kom fram ósk frá fulltrúum fyrrverandi starfsmanna bankans um að staðfestingu yrði frestað og varð ráðuneytið við því. Vildu þessir aðilar kanna hvort hægt væri að ná samkomulagi um að stytta þann tíma sem þarf til þess að öðlast verðtryggð lífeyrisréttindi. Töldu þeir óheppilegt að ganga frá reglugerð með óbreyttum verðtryggingarákvæðum á meðan á viðræðum stæði milli Íslandsbanka hf. og Sambands íslenskra bankamanna um lífeyrismál starfsmanna bankans. Vegna þeirrar reglu um skiptingu greiðslna milli ríkissjóðs og hlutafélagsbanka (nú Íslandsbanka hf.) sem er að finna í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987 er ljóst að slík breyting verður ekki gerð án atbeina bankans. Viðræðunum er nú lokið og var ráðuneytinu nýlega kynnt samkomulag um lífeyrismál starfsmanna Íslandsbanka hf. en þar er m.a. að finna yfirlýsingu um lífeyrismál fyrrverandi starfsmanna Útvegsbankans. Ráðuneytið telur að nú sé hægt að ganga frá staðfestingu á reglugerðinni. Hugsanlegt er þó að staðfestingin verði látin bíða þar til niðurstaða liggur fyrir í úttekt sem verið er að gera á kostnaðaráhrifum breytinga á verðtryggingartímanum. Ráðuneytið telur hins vegar orðið brýnt að koma formlegri skipan á starfsemi sjóðsins og mun því ekki bíða með staðfestingu á reglugerðinni ef fyrirsjáanlegt er að ákvarðanir um hugsanlegar breytingar á verðtryggingarákvæðum reglugerðarinnar muni dragast.

Loks er kvartað yfir því að 6. gr. laga nr. 7/1987 mismuni mönnum með ólögmætum hætti. Ráðuneytið telur að svo sé ekki og vill jafnframt benda á að þegar ákvæði 6. gr. eru virt verður einnig að líta til 5. gr. laganna sem kveður á um rétt til endurráðningar og uppsagnarfrest. Að öðru leyti telur ráðuneytið það ekki sitt hlutverk að meta stjórnskipulegt gildi laganna.

Hjálagt er reglugerð fyrir sjóðinn frá 1974 og ljósrit úr fundargerðarbók sjóðsins."



Með bréfi, dags. 8. nóvember 1994, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við ofangreint bréf fjármálaráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér 17. nóvember 1994.





IV.

Hinn 1. júní 1995 ritaði ég formanni stjórnar Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands bréf, þar sem þá hafði verið skipuð stjórn fyrir eftirlaunasjóðinn, og beindi því til stjórnarinnar, að hún skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, er málið snertu, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Sérstaklega fór ég fram á, að stjórnin skýrði viðhorf sitt til þess þáttar í kvörtun A, sem varðar hækkun vaxta á skuldabréfum.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1995, er barst mér 8. ágúst 1995, svaraði stjórn eftirlaunasjóðsins bréfi mínu. Er svar sjóðstjórnar svohljóðandi:



"Stjórnin hefur látið kanna breytingar á vaxtakjörum hjá þeim sem hætt hafa í bönkunum eftir 1. maí 1987. Í ljós hefur komið að nokkur misbrestur hefur orðið á því að samræmis hafi verið gætt við breytingar á vöxtum. Stjórnin telur vafasamt að unnt sé að hækka vexti nú hjá þeim sem vextir voru ekki hækkaðir hjá þegar þeir létu af störfum. Til þess að gæta samræmis hefur stjórnin því ákveðið að lækka vexti í 3,5% hjá þeim sem nú greiða hærri vexti og hættu eftir 1. maí 1987.

Ákvörðun þessi tekur m.a. til [A] og verða því vextir lækkaðir á skuldabréfi hans í samræmi við ofangreint.

Stjórnin telur ekki efni til að tjá sig um önnur atriði í kvörtun [A]."



Með bréfi, dags. 9. ágúst 1995, gaf ég A kost á því að gera þær athugasemdir í tilefni af fyrrgreindu bréfi stjórnar eftirlaunasjóðsins, sem hann teldi ástæðu til. Athugasemdir hans bárust mér með bréfi, dags. 11. ágúst 1995. Tekur A fram, að svarbréf stjórnar eftirlaunasjóðsins sýni, að rangar séu staðhæfingar viðskiptaráðuneytisins í bréfi, dags. 10. júlí 1990, til hans, og fjármálaráðuneytisins í bréfi, dags. 31. október 1994, til mín í tilefni af kvörtun A um að vaxtahækkanir hafi verið almenn regla. Með þeim greiðslum, sem hann hafi innt af hendi á árabilinu 1989-1991, telur A sig hafa skaðast um 144.190 kr. auk vaxta frá því að greiðslur voru inntar af hendi.



V.

Í forsendum og niðurstöðum álits míns, dags. 24. nóvember 1995, segir:

"Kvörtun A er í meginatriðum í fimm liðum. Í fyrsta lagi varðar kvörtun hans það, að vextir á skuldabréfum, sem Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands er kröfuhafi að, hafi verið hækkaðir. Í öðru lagi tekur kvörtun A til þess, að engin stjórn hafi verið skipuð fyrir eftirlaunasjóðinn þrátt fyrir fyrirmæli í lögum nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands. Í þriðja lagi varðar kvörtun A reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er tók gildi 1. janúar 1983, og lýtur þessi þáttur kvörtunarinnar bæði að efni reglugerðarinnar svo og því, að reglugerðin hafi hvorki verið staðfest af fjármálaráðuneytinu né birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 7. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Í fjórða lagi kvartar A yfir því, að ekki hafi verið gætt þeirrar lagaskyldu, sem mælt sé fyrir um í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, að setja nýja og endurskoðaða reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Í fimmta lagi telur A, að ákvæði 6. gr. laga nr. 7/1987 mismuni mönnum með ólögmætum hætti. Hér á eftir mun ég fjalla um hvern þátt í kvörtun A fyrir sig.



1.

A hefur fært þau rök fyrir þeim þætti kvörtunar sinnar, sem lýtur að hækkun vaxta af skuldabréfum, að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin af bærum aðila, þar sem ekki hafi verið skipuð stjórn fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, svo sem boðið sé í lögum nr. 7/1987. Þá hafi ekki verið til staðar efnislegar forsendur til að hækka vextina, þar sem Útvegsbanki Íslands hafi verið lagður niður. Heimild til vaxtahækkunar hafi meðal annars verið bundin við, að menn hættu störfum hjá Útvegsbankanum. Sökum þess að bankinn var lagður niður og uppsagna, sem af því leiddu samkvæmt lögum, hafi menn hætt störfum af ástæðum, sem þeim verði ekki um kennt. Forsendur til beitingar heimildarákvæðis um vaxtahækkun séu því ekki fyrir hendi. Þá telur A, að mönnum hafi verið mismunað að því er varðar þessar vaxtahækkanir.

Eins og fram kemur í bréfi stjórnar eftirlaunasjóðsins til mín, dags. 31. júlí 1995, hefur stjórnin látið kanna breytingar á vaxtakjörum hjá þeim, sem hætt hafa störfum eftir 1. maí 1987. Sú könnun hafi leitt í ljós, að nokkur misbrestur hafi orðið á því, að samræmis hafi verið gætt við vaxtabreytingar. Til þess að gæta samræmis hafi stjórnin ákveðið að lækka vexti hjá þeim, sem nú greiða hærri vexti og hættu eftir 1. maí 1987, enda telur stjórnin vafasamt, að unnt sé að leiðrétta ósamræmið með vaxtahækkun hjá þeim, sem ekki sættu henni, er þeir létu af störfum.

Með skírskotun til fyrrgreindrar ákvörðunar stjórnar eftirlaunasjóðsins um leiðréttingu vaxta, tel ég ekki ástæðu til frekari afskipta minna af því kvörtunarefni, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Ég tek fram, að í áliti þessu er ekki tekin afstaða til hugsanlegs endurkröfuréttar A vegna þegar greiddra vaxta.



2.

A kvartar yfir því, að ekki hafi verið skipuð stjórn fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, svo sem boðið sé í lögum nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands. Í svarbréfi sínu til mín, dags. 31. október 1994, vísar fjármálaráðuneytið til skýringa í bréfi sínu til mín, dags. 26. nóvember 1993, vegna kvörtunar A frá 13. apríl 1993, sbr. hér að framan. Í þessu bréfi fjármálaráðuneytisins kemur fram, að á árinu 1987 hafi fulltrúi ráðuneytisins verið tilnefndur í sjóðstjórnina í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 7/1987. Hins vegar tekur ráðuneytið fram, að svo virðist sem aldrei hafi verið gengið endanlega frá skipun stjórnarinnar. Er tekið undir það, sem fram kemur í bréfi viðskiptaráðuneytisins til mín, dags. 27. ágúst 1993, vegna fyrrgreindrar kvörtunar A, að engin virk stjórn hafi verið í sjóðnum á síðustu árum. Vegna þessarar skýringar fjármálaráðuneytisins er nauðsynlegt að taka upp orðrétt þann hluta úr bréfi viðskiptaráðuneytisins, sem fjármálaráðuneytið vísar til. Þar segir:



"Þannig mun hafa tekist til með tilnefningu fulltrúa í stjórn sjóðsins að fjármálaráðherra tilnefndi starfsmann fjármálaráðuneytisins í stjórnina, sem á síðustu misserum hefur dvalið erlendis á vegum ráðuneytisins og ekki hefur verið tilnefndur fulltrúi í hans stað. Hefur af því leitt að í raun hefur engin virk stjórn verið fyrir eftirlaunasjóðinn á síðustu misserum og hefur bankaeftirlit Seðlabanka Íslands, sem nú hefur með hendi eftirlit með lífeyrissjóðum, nýlega gert athugasemd við þetta."



Samkvæmt 1. gr. reglugerðar, um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er tók gildi 1. janúar 1983, skyldi stjórn sjóðsins skipuð þremur mönnum, formanni bankaráðs, einum bankastjóra, völdum af bankastjórn, og hinum þriðja, kosnum af sjóðfélögum til þriggja ára í senn. Í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, er mælt svo fyrir, að eftir gildistöku laganna skuli reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands endurskoðuð með tilliti til þeirra breytinga, sem leiðir af lögunum. Fjármálaráðherra skuli tilnefna einn fulltrúa í stjórn sjóðsins í stað formanns bankaráðs og eins bankastjóra Útvegsbanka Íslands, uns endurskoðun reglugerðar um sjóðinn sé lokið, en við þá endurskoðun skuli við það miðað, að stjórn sjóðsins verði framvegis skipuð jafnmörgum mönnum frá fjármálaráðherra og þeim, sem greitt hafa til sjóðsins. Í 1. gr. endurskoðaðrar reglugerðar fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, sem staðfest var af fjármálaráðuneytinu 6. desember 1994, er mælt svo fyrir, að stjórn sjóðsins skuli skipuð tveimur fulltrúum fjármálaráðherra og tveimur fulltrúum sjóðfélaga. Fjármálaráðherra tilnefnir formann sjóðstjórnar. Noti sjóðfélagar ekki rétt sinn til að velja menn í stjórn, tilnefnir fjármálaráðherra menn í stað þeirra, svo að hún verði fullskipuð.

Fram hefur komið af hálfu viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis, sbr. einkum bréf ráðuneytanna til mín, dags. 27. ágúst 1993 og 26. nóvember 1993, að engin virk stjórn hafi verið í Eftirlaunasjóði starfsmanna Útvegsbanka Íslands um nokkurt árabil. Eins og skýrt kemur fram í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, bar að ganga frá nýrri skipan sjóðstjórnar, uns endurskoðun á reglugerð fyrir eftirlaunasjóðinn væri lokið. Ráðuneytunum ber ekki saman í skýringum sínum um það, hvað hafi valdið því, að ekki tókst að koma á starfhæfri stjórn fyrir sjóðinn þrátt fyrir sérstök lagafyrirmæli um skipun stjórnar fyrir tímann frá því að lögin tóku gildi og þar til endurskoðun reglugerðar fyrir sjóðinn væri lokið. Samkvæmt endurskoðaðri reglugerð skyldi enn breyta fyrirkomulagi sjóðstjórnar, sbr. fyrrgreint ákvæði laga nr. 7/1987. Svo virðist þó sem þetta hafi að einhverju leyti stafað af því, að úr hömlu dróst, að endurskoðun reglugerðar fyrir sjóðinn yrði lokið og hún staðfest. Þegar litið er til þess, hversu forræði fjármálaráðuneytisins á málefnum eftirlaunasjóðsins er háttað samkvæmt lögum nr. 7/1987, og jafnframt að málefni lífeyrissjóða ber undir það ráðuneyti samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, tel ég, að fjármálaráðuneytið hafi átt að sjá til þess, að málefnum eftirlaunasjóðsins væri stýrt af sjóðstjórn að lögum. Þar sem nú hefur verið gengið frá skipan stjórnar eftirlaunasjóðsins samkvæmt ákvæðum endurskoðaðrar reglugerðar fyrir hann, sé ég ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um þennan þátt kvörtunarinnar.



3.

Að því er snertir reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er tók gildi 1. janúar 1983, þá lýtur kvörtun A annars vegar að því, að reglugerð þessi hafi hvorki verið staðfest af fjármálaráðuneytinu né birt í B-deild Stjórnartíðinda, og hins vegar að því, að samkvæmt efni sínu mismuni reglugerðin sjóðfélögum.

Að því er fyrri þáttinn áhrærir er viðurkennt af hálfu fjármálaráðuneytisins, sbr. svarbréf þess til mín, dags. 31. október 1994, að reglugerðin hafi ekki verið staðfest af ráðuneytinu svo sem ákvæði laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, mæla fyrir um. Því er haldið fram af fjármálaráðuneytinu, að ekki skipti þó máli fyrir gildi reglugerðarinnar, þótt staðfestingin hafi farist fyrir. Þá kemur fram af hálfu fjármálaráðuneytisins, að aldrei hafi tíðkast, að reglugerðir fyrir lífeyrissjóði væru birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Sú reglugerð, sem hér um ræðir, var undirrituð af stjórn Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Á þeim tíma, sem reglugerð þessi var sett, voru ákvæði um staðfestingu fjármálaráðuneytisins á reglugerðum fyrir lífeyrissjóði á tveimur stöðum í löggjöfinni, annars vegar í 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 194/1981, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og hins vegar í 1. tölul. D-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. reglugerðarákvæði, er sett voru á grundvelli hliðstæðra ákvæða í eldri skattalöggjöf. Síðarnefnda lagaákvæðið var fellt úr gildi með 4. gr. laga nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og eftir það hefur staðfesting fjármálaráðuneytisins á reglugerðum fyrir lífeyrissjóði einvörðungu byggst á 2. gr. laga nr. 55/1980. Þá má geta þess, að í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða, er gengið út frá því, að lífeyrissjóðir starfi eftir staðfestum reglugerðum.

Samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum var og er fjármálaráðuneytinu skylt að sjá til þess, að lífeyrissjóðir starfi eftir reglugerðum, staðfestum af því. Áskilnað laga um staðfestingu fjármálaráðuneytisins á reglugerðum fyrir lífeyrissjóði verður að skilja svo, að ráðuneytinu beri að synja um staðfestingu á slíkum reglugerðum, ef það telur ákvæði þeirra stríða gegn lögum eða öðrum réttarreglum. Því ber ráðuneytinu að kanna, hvort ákvæði slíkra reglugerða séu í samræmi við lög og aðrar réttarreglur. Staðfesting ráðuneytisins á reglugerðum lífeyrissjóða er sérstök stjórnvaldsákvörðun og samkvæmt framansögðu felst í staðfestingunni veigamikill öryggisþáttur í skipan og starfsemi lífeyriskerfis hér á landi. Að mínum dómi verður að sjá tryggilega fyrir því, að lífeyrissjóðir starfi samkvæmt staðfestum reglugerðum. Ekkert kemur fram um það af hálfu fjármálaráðuneytisins í bréfi þess, dags. 31. október 1994, hvað hafi valdið því, að staðfesting á reglugerð fyrir umræddan eftirlaunasjóð fórst fyrir. Vegna framangreindrar lagaskyldu sinnar ber fjármálaráðuneytið stjórnarfarslega ábyrgð á því, að starfsemi lífeyrissjóðanna sé að þessu leyti í samræmi við lög. Hinn 6. desember 1994 staðfesti fjármálaráðuneytið reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er var endurskoðuð reglugerð samkvæmt fyrirmælum í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, sbr. 4. lið hér síðar. Tel ég því ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um þennan þátt kvörtunarinnar. Af þessu tilefni tel ég hins vegar sérstaka ástæðu til að beina því til fjármálaráðuneytisins, að sjá til þess, svo að tryggt sé, að lífeyrissjóðir starfi samkvæmt staðfestum reglugerðum.

Fjármálaráðuneytið upplýsir í bréfi sínu til mín, dags. 31. október 1994, að aldrei hafi tíðkast að staðfestar reglugerðir fyrir lífeyrissjóði væru birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Þótt ekki komi það sérstaklega fram í þessu bréfi ráðuneytisins, þá mun málum hafa verið svo háttað, að alls engin birting hefur farið fram á slíkum reglugerðum hvorki á þeim í heild sinni né á meginefni þeirra og engar opinberar tilkynningar birtar um að staðfesting slíkra reglugerða hafi farið fram.

Um birtingu í B-deild Stjórnartíðinda er fjallað í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, sbr. 1. gr. laga nr. 95/1994, um breytingu á þeim lögum. Málsgrein þessi er svohljóðandi:



"Í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglugerðir, erindisbréf, samþykktir og auglýsingar, sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, umburðarbréf, ákvarðanir og úrlausnir ráðuneyta, sem almenna þýðingu hafa, veitingar opinberra starfa og lausn frá þeim, er handhafi æðsta framkvæmdarvalds eða ráðherra fer með, reikninga sjóða, ef svo er mælt í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra, úrslit alþingiskosninga, skrá yfir félög, firmu og vörumerki, sem tilkynnt hafa verið á árinu, heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun, sem ríkisstjórnin veitir. Einnig skal þar birta reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að gefa út."



Sökum staðfestingar ráðherra á reglugerðum fyrir lífeyrissjóði samkvæmt lagaákvæðum um það efni, sem fyrr er getið, tel ég ótvírætt samkvæmt berum orðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, sbr. hér að ofan, að borið hafi að birta slíkar reglugerðir í B-deild Stjórnartíðinda og að ekki skipti máli um þá birtingarskyldu, þótt reglugerðir þessar feli ekki í sér almenn stjórnvaldsfyrirmæli í venjulegum skilningi. Ekki kemur fram af hálfu fjármálaráðuneytisins, á hverju það hafi byggt það sjónarmið sitt, að ekki bæri að birta staðfestar reglugerðir fyrir lífeyrissjóði.

A telur, að ákvæði reglugerðar fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er tók gildi 1. janúar 1983, sem binda réttindi sjóðfélaga við lágmarksiðgjaldagreiðslutíma, þ. e. 6 og 15 ár, fái ekki staðist, þar sem þau feli í sér slíka mismunun, að þau fari í bága við stjórnarskrárvarða vernd eignarréttinda. Eins og fyrr segir, var reglugerð þessi ekki sérstaklega staðfest af fjármálaráðuneytinu, eins og lög stóðu til. Hinn 6. desember 1994 staðfesti fjármálaráðuneytið loks reglugerð fyrir eftirlaunasjóðinn. Í 7. gr. þeirrar reglugerðar er tekið fram, að um þau atriði, sem ekki er kveðið á um í reglugerðinni, þ. m. t. réttindi sjóðfélaga, fari eftir því, sem við á samkvæmt reglugerð þeirri, sem tók gildi 1. janúar 1983. Skuli sú reglugerð fylgja reglugerðinni sem viðauki. Í þessu felst, að reglugerð sú, sem gildi tók 1. janúar 1983, og hefur að geyma hin umdeildu ákvæði, hefur hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins hinn 6. desember 1994. Eru því efni til, að ég athugi, hvort rétt hafi verið af fjármálaráðuneytinu að staðfesta reglugerðina að hinum umdeildu ákvæðum óbreyttum.

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins til mín, dags. 31. október 1994, kemur fram, að venja hafi verið að breyta reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands til samræmis við reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Í reglugerð fyrir þann eftirlaunasjóð, sem tók gildi 1. janúar 1982, voru ákvæði, sem bundu réttindi sjóðfélaga við ákveðinn iðgjaldagreiðslutíma, hliðstæð hinum umdeildu ákvæðum í reglugerðum fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Í reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans, er gilti frá 1. janúar 1988, eru öll ákvæði af þessum toga afnumin, nema réttur til makalífeyris er bundinn við 12 mánaða lágmarksiðgjaldagreiðslutíma.

Það er út af fyrir sig rétt, sem fram kemur í fyrrgreindu bréfi fjármálaráðuneytisins, að ákvæði af þessu tagi eru ekki óþekkt í lögum og reglugerðum fyrir lífeyrissjóði, sbr. meðal annars 1. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og ákvæði í lögum nr. 16/1965, um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna. Ég tel hins vegar, með sérstöku tilliti til þeirrar leiðsagnar, sem fjármálaráðuneytið upplýsir, að reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans hafi haft fyrir reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, að ráðuneytinu hafi borið að kanna það sérstaklega, áður en það staðfesti reglugerð fyrir síðarnefnda sjóðinn með hinum umdeildu ákvæðum óbreyttum, hvort þær róttæku breytingar, sem urðu á hliðstæðum ákvæðum í reglugerð fyrir fyrrnefnda sjóðinn með reglugerð frá 1988, gæfu tilefni til þess, að ákvæði þessi yrðu endurskoðuð að því er varðar reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Þá ályktun verður að draga af svari fjármálaráðuneytisins, miðað við málsatvik, að ekki hafi verið hugað að þessu. Eru það tilmæli mín, að fjármálaráðuneytið taki þennan þátt málsins upp sérstaklega og kanni, hvort efni séu til þess, að það gangist fyrir því, að hin umdeildu ákvæði verði samræmd ákvæðum reglugerðar um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans.



4.

Lög nr. 7 frá 18. mars 1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, tóku gildi hinn 19. mars 1987. Í 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna segir svo: "Eftir gildistöku laga þessara skal reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands endurskoðuð með tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af lögum þessum." Eins og fram kemur í 2. lið hér að framan, var endurskoðuð reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands loks staðfest hinn 6. desember 1994. Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags, 6. desember 1994, til Íslandsbanka hf. vegna staðfestingar reglugerðarinnar segir meðal annars svo: "Ráðuneytið hefur nú ákveðið að staðfesta nýja reglugerð fyrir sjóðinn. Í reglugerðinni er að finna ný ákvæði um stjórn, skipulag og ávöxtun á fé sjóðsins. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að um starfsemi sjóðsins, þ. m. t. réttindi sjóðfélaga, fari skv. reglugerðinni frá 1983 eftir því sem við á sbr. og 6. gr. laga nr. 7/1987. Þetta þýðir að í reglugerð þeirri sem nú er staðfest er ekki gert ráð fyrir breytingum á ákvæðum reglugerðarinnar frá 1983 um verðtryggingu."

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins til mín, dags. 31. október 1994, koma fram nokkrar skýringar á því, hvers vegna dróst að gengið yrði frá endurskoðaðri reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands jafnframt því sem ráðuneytið vísar til bréfs síns til mín, dags. 26. nóvember 1993, um skýringar á þessu, þar sem meðal annars er vísað til bréfs viðskiptaráðuneytisins til mín, dags. 27. ágúst 1993. Í síðastnefndu bréfi kemur fram, að þáverandi viðskiptaráðherra hafi skipað nefnd til að endurskoða reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er skilað hafi áliti til ráðherrans hinn 10. desember 1987. Það álit hafi verið framsent fjármálaráðherra 2. febrúar 1988. Tekið er fram í bréfinu, að fjármálaráðuneytið hafi sent reglugerðardrögin til umsagnar tryggingarstærðfræðings, sem gert hafi athugasemdir við þau, er orðið hafi til þess, að fjármálaráðuneytið frestaði staðfestingu á reglugerðinni og standi sú frestun enn. Er síðastnefnd atburðarás staðfest í bréfi fjármálaráðuneytisins til mín, dags. 26. nóvember 1993, þar sem fram kemur, að unnið sé að nýrri reglugerð, er ráðgert sé að staðfesta í desember 1993. Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins til mín, dags. 31. október 1994, kemur fram, að síðar hafi frekari tafir orðið á staðfestingu vegna beiðni fulltrúa fyrrverandi starfsmanna bankans, sem haft hafi hug á því að auka verðtryggingarrétt, er þeir hafi talið óheppilegt að gera, meðan á viðræðum stæði milli Íslandsbanka hf. og Sambands íslenskra bankamanna um lífeyrismál.

Það er út af fyrir sig rétt, að lífeyrisréttur samkvæmt reglum fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands getur haft þýðingu fyrir fleiri en sjóðfélaga, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, auk þess sem lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna geta almennt haft þýðingu fyrir starfsmenn einkabanka, sbr. meðal annars í þeim efnum dóm Félagsdóms frá 22. apríl 1992 (Íslandsbanki hf. gegn Sambandi íslenskra bankamanna). Þetta réttlætir þó engan veginn, að ekki hafi verið gengið frá endurskoðaðri reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands samkvæmt beinum fyrirmælum í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1987, fyrr en liðið var hátt á áttunda ár frá því að lögin öðluðust gildi. Þar sem endurskoðuð reglugerð hefur nú loksins verið sett, eru ekki efni til frekari umfjöllunar um þetta af minni hálfu.

Þá verður ekki hjá því vikist að gera athugasemd við frágang þeirrar endurskoðuðu reglugerðar, sem fjármálaráðuneytið staðfesti 6. desember 1994. Í 7. gr. reglugerðar þessarar, sem er í átta greinum, er tekið fram, að um þau atriði, sem ekki er kveðið á um í reglugerðinni, þ. á m. réttindi sjóðfélaga, fari eftir því sem við á samkvæmt reglugerð þeirri, er tók gildi 1. janúar 1983. Skuli sú reglugerð fylgja reglugerðinni sem viðauki og jafnframt skuli 6. gr. laga nr. 7/1987 vera viðauki við reglugerðina. Er reglugerðinni frá 1983 skeytt sem viðauka I við reglugerðina og téðu lagaákvæði sem viðauka II. Þessi háttur fjármálaráðuneytisins á endurskoðun reglugerðarinnar er að mínum dómi ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Beini ég því til fjármálaráðuneytisins að vanda betur frágang reglugerðarinnar að þessu leyti við fyrstu hentugleika og ekki síðar en í tilefni af næstu breytingu á henni.



5.

Loks lýtur kvörtun A að því, að ákvæði laga nr. 7/1987 mismuni mönnum svo, að ekki fái staðist samkvæmt jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Bendir A á 6. gr. laganna, er feli í sér, að skyldur ríkissjóðs séu meiri við þá starfsmenn Útvegsbanka Íslands, er skylt hafi verið að endurráða, en þá sem óskylt hafi verið að ráða og hafi ekki verið endurráðnir.

Í tilefni af þessum þætti kvörtunarinnar bendi ég á, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Af því leiðir, að umboðsmanni er almennt ekki ætlað að hafa afskipti af lögum og löggjafarstarfi Alþingis. Af þessum ástæðum mun ég ekki fjalla frekar um þetta umkvörtunarefni A.



VI.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ekki sé tilefni til að fjalla frekar um þann þátt kvörtunar A, sem varðar hækkun vaxta af skuldabréfum, þar sem yfirlýsing stjórnar Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands um leiðréttingu á þessu liggur fyrir.

Þá tel ég, að óhæfilegur dráttur hafi orðið á því, að komið yrði á starfhæfri stjórn fyrir eftirlaunasjóðinn og að gengið yrði frá nýrri og endurskoðaðri reglugerð fyrir hann í samræmi við fyrirmæli laga nr. 7/1987. Þar sem hvorttveggja er loks komið í höfn, tel ég ekki ástæðu til frekari umfjöllunar um þessa þætti kvörtunarinnar.

Ég álít aðfinnsluvert, að fjármálaráðuneytið skyldi ekki sjá til þess, að reglugerðin frá 1983 fyrir eftirlaunasjóðinn yrði staðfest af ráðuneytinu, og af því tilefni tel ég ástæðu til að beina því til fjármálaráðuneytisins, að það tryggi að lífeyrissjóðir starfi samkvæmt staðfestum reglugerðum.

Þá er það skoðun mín, að staðfestar reglugerðir fyrir lífeyrissjóði beri samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, að birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Að því er varðar efni reglugerðar fyrir eftirlaunasjóðinn með tilliti til ákvæða um lágmarksiðgjaldagreiðslutíma (verðtryggingarákvæði) tel ég ástæðu til að fjármálaráðuneytið hafi forgöngu um athugun á því, hvort efni séu til þess að samræma þau ákvæði ákvæðum í reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans.

Frágangur endurskoðaðrar reglugerðar fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, er staðfest var 6. desember 1994, er að mínum dómi ekki vandaður og beini ég því til fjármálaráðuneytisins að bæta úr því.

Ætluð mismunun í lögum nr. 7/1987 gefur ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar af minni hálfu, enda lýtur sá þáttur kvörtunarinnar að löggjafarstarfi Alþingis."



VII.

Með bréfi, dags. 23. febrúar 1996, óskaði ég eftir því við fjármálaráðherra, að ráðuneyti hans upplýsti hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af fyrrgreindu áliti mínu. Svar fjármálaráðuneytisins, dags. 2. maí 1996, hljóðar svo:



"Í kjölfar álits yðar tók ráðuneytið þá ákvörðun að birta framvegis allar reglugerðir lífeyrissjóða í B-deild stjórnartíðinda og hafa nú þegar nokkrar reglugerðir verið birtar þar. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um önnur atriði sem fjallað er um í áliti yðar en þau atriði eru til skoðunar í ráðuneytinu."