Skaðabætur.

(Mál nr. 6339/2011)

A kvartaði yfir málsmeðferð efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og ríkislögmanns í tilefni af beiðni hans um afstöðu til bótaskyldu ríkisins vegna athafna Fjármálaeftirlitsins í tengslum við stöðvun viðskipta með fjármálagerninga sem gefnir voru út af X hf. 29. september 2008 og 6. október s.á. og síðar að skipa bankanum skilanefnd og flytja hluta af starfseminni yfir í nýjan banka. Kvörtun A laut nánar tiltekið að því að málshraðaregla 9. gr., rannsóknarregla 10. gr. og reglur um aðgang að gögnum máls í 15.-19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefðu verið brotnar.

Umboðsmaður Alþingis laut athugun sinni á kvörtun A með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem af gögnum málsins varð ekki séð að A hefði leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna erindis um aðgang að gögnum taldi umboðsmaður bresta lagaskilyrði til athugunar á því atriði í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þar sem beiðni A laut að því að tiltekin stjórnvöld tækju afstöðu til bótaskyldu ríkisins á grundvelli óskráðra grundvallarreglna skaðabótaréttar fékk umboðsmaður ekki séð að tekin hefði verið eða til greina hefði komið að taka ákvörðun um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi umboðsmaður ekki verða séð að brotið væri gegn óskráðri rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins þrátt fyrir að ríkislögmaður hefði ekki tekið fram í bréfi til A hvaða aðili hefði látið honum í té tilteknar upplýsingar um málsatvik. Eins og kvörtunin var úr garði gerð og eftir að hafa kynnt sér skýringar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og gögn málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að óskráða rannsóknarreglan hefði verið brotin. Hann benti í því sambandi að A hefði ekki gert athugasemdir við að efni upplýsinganna hefði verið ófullnægjandi til þess að hægt hefði verið að taka upplýsta ákvörðun. Umboðsmaður lauk því athuguninni en ákvað engu að síður að rita efnahags- og viðskiptaráðherra bréf þar sem hann benti ráðuneyti hans, sem fór með ákvörðunarvald um hvort bótaskylda í málinu yrði viðurkennd, á að það bæri ábyrgð á að gætt væri að réttum málsmeðferðarreglum, þ. á m. óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða, en u.þ.b. sjö og hálfur mánuður leið frá því að erindi A var sent og þar til afstaða ríkislögmanns lá fyrir og var tilkynnt fulltrúa hans. Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að huga betur að þessu atriði í framtíðarstörfum sínum.