Skaðabætur.

(Mál nr. 6426/2011)

A kvartaði yfir úrræðaleysi í kjölfar tjóns á heimili sínu og fjölskyldu sinnar vegna snjófljóðs er féll á húsið á níunda áratugnum og vísaði í því sambandi til viðbragða bæði Alþingis og ráðherra í formi lagasetningar og bótagreiðslna vegna annarra náttúruhamfara o.fl. Kvörtunin beindist að forsætisráðuneytinu, en einnig að samkomulagi milli sveitarfélagsins X annars vegar og sín og eiginkonu sinnar hins vegar, sem undirritað var árið 2008, að ofanflóðasjóði og umhverfisráðuneytinu.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Mál A var enn til meðferðar hjá forsætisráðuneytinu og því taldi umboðsmaður ekki skilyrði til að fjalla um þann þátt málsins að svo stöddu. Samkomulag A og eiginkonu hans við sveitarfélagið X var gert fyrir tæplega þremur árum eða utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður gat því ekki fjallað efnislega um samkomulagið, en benti auk þess á að í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 yrði að freista þess að leita til innanríkisráðuneytisins áður en umboðsmaður gæti tekið kvörtun á hendur sveitarfélaginu til meðferðar, sbr. 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Sá þáttur kvörtunarinnar sem sneri að ofanflóðasjóði og umhverfisráðuneytinu var ekki þannig úr garði gerður og ekki studdur nægjanlegum gögnum til að vera tækur til umfjöllunar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en umboðsmaður tók fram að hefði A upplýsingar eða gögn undir höndum sem að honum lyti væri honum velkomið að leita til sín að nýju á grundvelli þeirra.