Skattar og gjöld. Stöðvunarbrotsgjald.

(Mál nr. 6260/2010)

Umboðsmaður Alþingis tók til athugunar að eigin frumkvæði lögmæti ákvæða í gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg, staðfestri af samgönguráðherra á grundvelli 5. mgr. 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. augl. nr. 414/2010. Nánar tiltekið laut athugunin að því hvort og þá hvernig ákvæði 1.-3. gr. gjaldskrárinnar, þar sem fram kemur að veittur skuli 1.100 kr. afsláttur af þartilgreindum gjöldum „ef greitt er án fyrirvara og andmæla í bankastofnun eða heimabanka innan þriggja virkra daga frá álagningu gjaldsins“, samrýmdust 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þeirri meginreglu að ákvarðanir og athafnir stjórnvalda verði ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Tildrög athugunarinnar var kvörtun einstaklings yfir innheimtu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á gjaldi fyrir stöðubrot með álagi og málsmeðferð sjóðsins við álagningu gjaldsins. Því máli lauk en við athugun þess vakti framangreint atriði athygli umboðsmanns.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í svörum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns í tilefni af málinu kom m.a. fram að ráðuneytið teldi rétt að taka umrædd reglugerðarákvæði til endurskoðunar haustið 2011. Þá bárust þær upplýsingar frá borgarlögmanni að það væri afstaða Reykjavíkurborgar að rétt væri að breyta gjaldskránni. Í ljósi þessara viðbragða taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.