Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6509/2011)

A kvartaði f.h. dánarbús yfir úrskurði yfirskattanefndar þar sem hafnað var kröfu dánarbúsins um að hnekkja þeirri breytingu skattstjórans í Reykjavík að tekjufæra söluhagnað fasteignar í skattframtali dánarbúsins árið 2009.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti á að þegar atvik málsins áttu sér stað gilti 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem m.a. kemur fram að hafi maður átt hið selda íbúðarhúsnæði í tvö ár eða lengur teljist söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna, ekki um dánarbú. Þá benti hann á að samkvæmt gögnum málsins hefði fasteignin verið seld áður en skiptum á dánarbúinu lauk. Því væri ljóst að tekjur sem féllu til við söluna hefðu tilheyrt dánarbúinu og borið hefði að skattleggja þær hjá dánarbúinu samkvæmt 15. gr. laga nr. 90/2003. Því taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við niðurstöðu yfirskattanefndar þar að lútandi. Umboðsmaður taldi ekki heldur forsendur til að gera athugasemd við þá afstöðu yfirskattanefndar að ekki hefði þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að sýslumaður eða skattstjóri hefðu ekki vakið athygli erfingjanna á skattalegum afleiðingum ráðstafana eigna dánarbúsins við yfirferð sína á erfðafjárskýrslu. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að leiðbeiningarskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga tæki til starfssviðs hlutaðeigandi stjórnvalds og því teldi hann sýslumanni ekki hafa verið skylt að gera erfingjunum grein fyrir því hvaða skattareglur tekjuskattslaga giltu í málinu, t.d. um söluhagnað íbúðarhúsnæðis, heldur hvíldi sú skylda á skattstjóranum í Reykjavík, nú ríkisskattstjóra. Að lokum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við afstöðu yfirskattanefndar til atriða er vörðuðu skattstofn hlutbréfa, frádrátt vegna opinberra gjalda og endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum lífeyristrygginga.