Skattar og gjöld. Úrvinnslugjald.

(Mál nr. 6592/2011)

A ehf. óskaði þess að eldra mál sitt hjá umboðsmanni Alþingis yrði tekið til nýrrar skoðunar en þar hafði félagið óskað þess að umboðsmaður tæki til athugunar hvort ríkisskattstjóri og úrvinnslusjóður hefðu sinnt skyldum sem A taldi hvíla á þeim að lögum um leiðbeiningar og samráð í tengslum við breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, og fólu m.a. í sér hækkun á úrvinnslugjaldi á umbúðum gerðum úr pappa og pappír úr 7 kr./kg í 12 kr./kg. A ehf. var innheimtuaðili á úrvinnslugjaldi f.h. ríkissjóðs en var ekki kunnugt um hækkunina og innheimti því of lágt úrvinnslugjald tiltekið tímabil og þurfti að greiða mismun í ríkissjóð. Umboðsmaður taldi að afstaða umhverfisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins til kvörtunarefnisins yrði að liggja fyrir áður en hann fjallaði frekar um kvörtunina og lauk því máli með bréfi. A leitaði á ný til umboðsmanns að fenginni afstöðu þessara stjórnvalda.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 23. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður fékk ekki séð að hvílt hefði skylda að lögum á Úrvinnslusjóði eða eftir atvikum ríkisskattstjóra til að kynna A ehf. fyrirfram um breytingar á lögum nr. 162/2002 þótt slíkt kynni að hafa verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til athugasemda af sinni hálfu við aðkomu Úrvinnslusjóðs og ríkisskattstjóra að lagabreytingunni. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til athugasemda við afgreiðslur fjármálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins á kvörtunum A ehf. og horfði þá sérstaklega til þess að umhverfisráðuneytið hefði, í tilefni af kvörtun A ehf. beint tilmælum til Úrvinnslusjóðs um að huga að því að birta tilkynningar um breytingar á lögum nr. 162/2002 á heimasíðu sinni.