Skattar og gjöld. Útsvar.

(Mál nr. 6602/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og óskaði upplýsinga um tilgang lagaheimildar um hækkun á útsvari og með hvaða hætti bæri að ráðstafa þeim fjármunum sem sveitarfélag aflaði á grundvelli þeirrar heimildar.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður tók fram að það væri ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hefðu ekki í vissum tilvikum farið að lögum eða ekki fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði fyrir því að fjalla með almennum hætti um álitaefni í erindi A en tók fram að ef hann væri ósáttur við tilteknar athafnir eða ákvarðanir sveitarfélags, er hefðu áhrif á hagsmuni hans, gæti hann freistað þess að bera málið undir innanríkisráðuneytið, sbr. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, áður en hann leitaði til sín með slíka kvörtun, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.