Sjávarútvegur.

(Mál nr. 6556/2011)

A ehf. kvartaði yfir úrskurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um að synja umsókn félagsins um strandveiðileyfi fyrir bátinn X.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

A keypti bátinn af Y árið 2010 en veiðiheimildir fylgdu ekki heldur voru fluttar á nýjan bát í eigu Y. Umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, væri óheimilt frá og með árinu 2011 að veita leyfi til strandveiða hefði aflamark umfram það aflamark sem flutt hefði verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af fiskiskipi. Í því sambandi taldi umboðsmaður það ekki hafa þýðingu þótt aflamarkið hefði verið keypt af fyrri eiganda skipsins og verið flutt á nýtt skip í hans eigu. Í yfirliti yfir krókaaflamarksstöðu á fiskveiðiárinu 1. september 2010-31. ágúst 2011 kom fram að tilgreint magn þorskígildistonna hefði verið flutt af bátnum á fiskveiðiárinu umfram það sem flutt hefði verið til hans. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við staðfestingu ráðuneytisins á ákvörðun Fiskistofu um að veita ekki strandveiðileyfi vegna X fiskveiðiárið 2010/2011 og lauk umfjöllun sinni um málið.