Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6508/2011)

A ehf. kvartaði yfir því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki afgreitt fimm tilgreind mál er vörðuðu B hf. og hófust með kvörtunum A ehf.

Umboðsmaður Alþingis lauk meðferð sinni á málinu með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Af skýringum Samkeppniseftirlitsins til umboðsmanns vegna málsins varð ekki annað ráðið en að vænta mætti niðurstöðu í þremur málanna á næstu vikum og að fjórða málið hefði verið haft til hliðsjónar við úrvinnslu á fimmta málinu og miðaði rannsókn þess máls áfram. Í ljósi skýringanna taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtuninni en tók fram að A væri heimilt að leita til sín að nýju yrði frekari óeðlilegur dráttur á afgreiðslu málanna. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að hann hefði til athugunar að afla nánari upplýsinga frá Samkeppniseftirlitinu um málshraða og myndi, ef til þess kæmi, m.a. hafa hliðsjón af upplýsingum í erindi A.