Útlendingar. Dvalarleyfi.

(Mál nr. 6502/2011)

Hinn 28. júní 2011 leituðu A og dóttir hennar, B, til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu vegna meðferðar þessara stjórnvalda á málum er vörðuðu dvalar- og atvinnuleyfi. Útlendingastofnun afturkallaði dvalarleyfi A og B á þeim grundvelli að A væri ekki lengur samvistum við íslenskan eiginmann sinn og nýrri umsókn þeirra um dvalarleyfi var síðar hafnað. Jafnframt hafnaði Útlendingastofnun endurupptökubeiðni A vegna afturköllunarinnar. Þá hafnaði Vinnumálastofnun umsókn A um atvinnuleyfi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður vísaði til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna umsókn A og B um nýtt dvalarleyfi hefði verið ógilt með úrskurði innanríkisráðuneytisins sem hefði jafnframt lagt fyrir stofnunina að veita þeim dvalarleyfi. Þá hefði þeim verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum. Í ljósi þess og þess að innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið höfðu nú afgreitt stjórnsýslukærur A vegna ákvarðana Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar taldi umboðsmaður ekki nægjanlegt tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af erindinu. Þá taldi umboðsmaður það verða að vera verkefni dómstóla að leysa úr álitamálum um hvort A og B ættu hugsanlega skaðabótarétt vegna málsmeðferðar og ákvarðana Útlendingastofnunar, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður ákvað þó að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að sjö mánuðir hefðu liðið frá því að kæra A á ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna dvalarleyfisumsóknum hennar og B barst þar til ráðuneytið úrskurðaði í málum þeirra og að tæpir tíu mánuðir hefðu liðið frá því að stjórnsýslukæra A vegna synjunar Útlendingastofnunar á endurupptökubeiðni hennar barst þar til ráðuneytið úrskurðaði í því máli Umboðsmaður ritaði einnig bréf til velferðarráðherra og gerði athugasemdir við að tæpir ellefu mánuðir hefðu liðið frá því að velferðarráðuneytinu barst stjórnsýslukæra A á synjun Vinnumálastofnunar á umsókn hennar um atvinnuleyfi þar til ráðuneytið afgreiddi kæruna. Í báðum bréfunum áréttaði umboðsmaður mikilvægi þess að afgreiðslu mála á þessu sviði væri hraðað eins og kostur væri, enda vörðuðu þau mikilvæga hagsmuni þeirra einstaklinga sem í hlut ættu.