Vegabréf og persónuskilríki.

(Mál nr. 6568/2011)

A kvartaði yfir því að geta ekki fengið gefið út almennt íslenskt vegabréf í Indónesíu, þar sem hann var búsettur, heldur stæði sér eingöngu til boða að sækja um neyðarvegabréf hjá ræðismanni Íslands í Jakarta. Í kvörtuninni kom fram að A væri búsettur í 400 km fjarlægð frá Jakarta og þyrfti vegabréf til að geta ferðast þangað.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í upplýsingum frá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytinu til umboðsmanns vegna málsins kom fram að mál A væri enn til meðferðar hjá ráðuneytinu og að ásættanleg lausn virtist í sjónmáli. Stefnt væri að því að A fengi útgefið neyðarvegabréf fyrir milligöngu kjörræðismanns Íslands í Indónesíu. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að halda athugun sinni áfram en tók fram að ef óhæfilegur dráttur yrði á meðferð málsins gæti A leitað til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.