Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6632/2011)

A kvartaði yfir vinnubrögðum og starfsháttum réttindasviðs og alþjóða- og stjórnsýslusviðs Tryggingastofnunar ríkisins og seinagangi úrskurðarnefndar almannatrygginga við úrvinnslu mála.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Fyrir lá að Tryggingastofnun ríkisins hafði leyst úr máli A og að kvörtun hans laut ekki að þeirri niðurstöðu heldur að almennum starfsháttum stofnunarinnar. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði til að taka málið til meðferðar á grundvelli kvörtunar, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Þar hafði hann einnig í huga þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laganna um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög áður en málið fer fyrir aðila utan stjórnkerfisins. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu að svo stöddu til að taka þau atriði sem erindi A fjallaði um til athugunar að eigin frumkvæði á grundvelli 5. gr. laganna og hafði þá m.a. í huga fjölgun kvartana hjá embættinu á sama tíma og niðurskurður hefði orðið á fjárveitingum. Að lokum tók umboðsmaður fram að hann hefði haft málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar almannatrygginga til almennrar skoðunar vegna erinda og kvartana sem hefðu borist en teldi mál A ekki gefa sér tilefni til þess að rita nefndinni sérstaklega vegna málsmeðferðartíma hennar í máli hans. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að hann myndi hafa upplýsingar frá A til hliðsjónar ef síðar gæfist tilefni til þess að fjalla um hvernig almennt er staðið að meðferð mála hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga og Tryggingastofnun ríkisins.