Félagsþjónusta sveitarfélaga.

(Mál nr. 6514/2011)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem staðfest var ákvörðun fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar um að synja honum um fjárhagsaðstoð á þeim grundvelli að hann væri skráður í lánshæft nám.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi þess svigrúms sem lög gera ráð fyrir að veita verði sveitarfélögum við nánari útfærslu á því hvernig standa skuli að fjárhagsaðstoð til handa einstaklingum og fjölskyldum og þess að umboðsmaður fékk ekki séð að synjun fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar og síðar úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála á beiðni A um styrk hefði verið í ósamræmi við reglur sveitarfélagsins eða byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum taldi hann sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir ákvörðun fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar og úrskurð úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þar horfði umboðsmaður til þess að A stundaði lánshæft nám og einnig að fjölskyldunefndin hafði boðið honum að taka lán sem næmi grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar þann tíma sem hann stundaði námið. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu. Hann ákvað þó að rita Mosfellsbæ bréf þar sem hann vakti athygli á því að svo virtist sem lagt hefði verið til grundvallar í greinargerð sveitarfélagsins sem lögð var fram á fundi að A hefði sótt um fjárhagsaðstoð frá 1. mars 2011 þrátt fyrir að af umsóknareyðublaði hans væri ljóst að hann hefði einnig óskað eftir aðstoð fyrir febrúarmánuð. Umboðsmaður mæltist til þess að betur yrði gætt að því að lýsa staðreyndum málsins með réttum hætti í gögnum sem væru grundvöllur ákvörðunartöku í málinu. Umboðsmaður ritaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála einnig bréf og gerði athugasemd við að nefndin hefði ekki gengið úr skugga um að umsókn A væri meðal gagna málsins hjá nefndinni og kallað eftir því hefði það ekki borist. Afleiðing þessa hefði orðið sú ekki hefði verið lagður fyllilega réttur grundvöllur að niðurstöðu í máli A enda tæki hún ekki til umsóknar hans um fjárhagsaðstoð vegna febrúarmánaðar 2011. Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefndin hugaði framvegis betur að því að öll gögn máls lægju fyrir þegar það væri tekið til úrlausnar.