Fjármála- og tryggingastarfsemi. Einkaréttarlegir aðilar.

(Mál nr. 6647/2011)

A kvartaði yfir því að hafa verið gert að greiða eftirstöðvar láns sem hann var í ábyrgð fyrir eftir að skuldarinn gekk í gegnum greiðsluaðlögunarferli og í framhaldi því fallið dómur um skuldina. A kvartaði einnig yfir að viðskiptabankinn X hefði ekki látið sig vita af því að lánið væri gjaldfallið fyrr en 22 mánuðum eftir gjaldfellinguna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að kvörtun hans beindist að ákvörðun og starfsemi einkaaðila sem fæli ekki í sér beitingu opinbers valds er þeim aðila hefði verið fengið með lögum. Í ljósi þessa og lagareglna um starfssvið umboðsmanns Alþingis taldi umboðsmaður ekki skilyrði til að taka erindið til frekari meðferðar. Hann benti A hins vegar á að honum kynni að vera fær sú leið að leita með erindið til umboðsmanns skuldara. Færi hann þá leið og yrði ósáttur við afgreiðslu á erindinu væri honum að öðru jöfnu heimilt að leita til sín að nýju.