Heilbrigðismál.

(Mál nr. 6644/2011)

A kvartaði yfir því að tilgreindir starfsmenn heilbrigðisstofnunar hefðu vottað andlegt hæfi föður hans er dvaldi á stofnuninni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

A hafði áður leitað til umboðsmanns vegna málsins sem taldi þá rétt að A freistaði þess að bera svör heilbrigðisstofnunarinnar við erindi A vegna atviksins undir velferðarráðuneytið áður hann fjallaði um málið. Af nýju erindi A varð ekki séð að hann hefði borið svörin undir ráðuneytið eins og umboðsmaður leiðbeindi honum um. Umboðsmaður tók því fram að það breytti ekki fyrri afstöðu sinni þótt ljóst væri að ráðuneytið hefði haft ákveðna aðkomu að málinu á fyrri stigum þess. Umboðsmaður ítrekaði því að hann teldi rétt að A freistaði þess að bera svör stofnunarinnar undir velferðarráðuneytið. Kysi hann að gera það gæti hann leitað til sín á nýjan leik að fenginni úrlausn ráðuneytisins.