Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit. Dýrahald.

(Mál nr. 6636/2011)

A kvartaði yfir áætlaðri gjaldtöku Akureyrarbæjar vegna kattahalds, tryggingaskyldu vegna heimiliskatta og takmörkun á gæludýrahaldi bæjarbúa.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að heimilt væri að bera samþykkt sveitarfélags um kattahald, gjaldskrá vegna kattahalds og skyldu til ábyrgðartryggingar kattaeigenda undir úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hann taldi því ekki vera fyrir hendi skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og lauk umfjöllun sinni um málið en tók þó fram að ef A kysi að leita til úrskurðarnefndarinnar og yrði ósátt við niðurstöðu hennar gæti hún leitað til sín á nýjan leik.