Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit. Dýrahald.

(Mál nr. 6643/2011)

Hinn 20. september 2011 kvartaði A yfir álagningu gjalds vegna kattahalds í Akureyrarkaupstað og drætti á svörum við beiðni sem hann sendi 29. júní 2011 um sundurliðun og rökstuðning vegnar álagningarinnar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að heimilt væri að bera samþykkt sveitarfélags um kattahald, gjaldskrá vegna kattahalds og skyldu til ábyrgðartryggingar kattaeigenda undir úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hann taldi því ekki vera fyrir hendi skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og lauk umfjöllun sinni um málið en tók þó fram að ef A kysi að leita til úrskurðarnefndarinnar og yrði ósáttir við niðurstöðu hennar gæti hann leitað til sín á nýjan leik. Í skýringum Akureyrarkaupstaðar til umboðsmanns vegna tafa á svörum við erindi A kom fram að A hefði nú verið sent bréf þar sem erindinu var svarað. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.