Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6653/2011)

A og B kvörtuðu yfir uppgreiðslugjaldi á láni hjá Íbúðalánasjóði. Þau töldu að ekki væri lagagrundvöllur fyrir innheimtu gjaldsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt gögnum sem bárust umboðsmanni kærðu A og B ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Í ljósi þess að úrskurðarnefndin hafði ekki fellt úrskurð í málinu taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og lauk meðferð sinni á málinu. Hann tók þó fram að færi svo að A og B yrðu ósátt við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar gætu þau leitað til sín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.