Lögreglu- og sakamál. Lok rannsóknar.

(Mál nr. 6513/2011)

A, B og C kvörtuðu yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að staðfesta ákvörðun sérstaks saksóknara um að vísa frá kæru þeirra vegna ætlaðra brota stjórnarmanna lífeyrissjóðs og starfsmanna viðskiptabanka vegna um 40% rýrnunar á eignum sjóðsins. Kvörtunin laut einnig að afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins á kærum þeirra vegna ætlaðra brota stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og starfsmanna bankans. Þá virtist hún í þriðja lagi lúta að ætluðum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins um að veita heimild til að sameina lífeyrissjóðinn öðrum sjóðum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að þær athafnir Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytsins sem kvörtunin beindist að hefðu átt sér stað á árunum 2007-2009 og væru því utan við ársfrest 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Því brast lagaskilyrði til að taka þann hluta erindisins til frekari athugunar. Í tilefni af þeim hluta kvörtunarinnar sem beindist að ríkissaksóknara, þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við heimfærslu ríkissaksóknara á brotinu sem kæran laut að til 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að virtum gögnum málsins og eins og kæran var úr garði gerð taldi umboðsmaður sig enn fremur ekki hafa forsendur til að fullyrða að það mat ríkissaksóknara að skort hefði tilefni til að hefja rannsókn í málinu hefði verið óforsvaranlegt. Þar horfði umboðsmaður einkum til þess að af gögnum málsins varð ekki ráðið að um ólögmætan ásetning til auðgunar hefði verið að ræða hjá hinum kærðu, en slíkt er skilyrði þess að refsað verði fyrir brot gegn 249. gr. laga nr. 19/1940. Að lokum taldi umboðsmaður að meint brot umræddra einstaklinga gegn 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisrétta og starfsemi lífeyrissjóða, og ákvæðum laganna að öðru leyti við sameiningu lífeyrissjóðanna hefðu verið fyrnd þegar ríkissaksóknari afgreiddi kæru A, B og C. Því taldi hann ekki forsendur til athugasemda við þá niðurstöðu ríkissaksóknara að vísa kærunni frá á þeim grundvelli.