Málefni fatlaðra.

(Mál nr. 6528/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Félagsþjónustu Kópavogs þar sem beiðni hans um úthlutun 60 ferða á mánuði með leigubifreið á strætisvagnafargjaldi vegna skóla, vinnu og tómstunda var synjað. Með ákvörðuninni voru honum hins vegar boðnar 60 ferðir á mánuði með ferðaþjónustu Kópavogs.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

A hafði borið ákvörðun Kópavogsbæjar undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sem hafði staðfest ákvörðunina. Kvörtun A til umboðsmanns laut hins vegar ekki beinlínis að úrskurði úrskurðarnefndarinnar heldur fyrst og fremst að ákvörðun Kópavogsbæjar, sem og framkvæmd bæjarins á ferðaþjónustu fatlaðra. Í ljósi þess hvernig kvörtunin var úr garði gerð og þess eftirlits sem lög nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, gera ráð fyrir að velferðarráðherra hafi með framkvæmd laganna, þ. á m. að þjónusta sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum sé í samræmi við markmið laganna, og með tilliti til þeirra sjónarmiða er búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefni sitt undir velferðarráðuneytið áður en hann tæki kvörtunina til frekari athugunar. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um erindi A en tók fram að hann gæti leitað til sín á ný ef hann teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni afgreiðslu velferðarráðuneytisins á erindi hans. Þá gæti hann leitað til sín vegna úrskurðar úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.