Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 6549/2011)

A kvartaði yfir ráðningu í stöðu sérfræðings í innanríkisráðuneytinu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á erindinu með bréfi, dags. 7. október 2011, með vísan til a- og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í bréfi innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns hefði komið í ljós að fyrir mistök hefði umsókn A ekki verið prentuð út úr málaskrá ráðuneytisins til frekari yfirferðar og mats. Þá kom fram að ráðuneytið hefði haft samband við A, útskýrt málið og beðist afsökunar. Einnig kom fram að til að lágmarka hættu af mistökum af þessum toga ætlaði ráðuneytið að taka upp umsókna- og ráðningarkerfið X til þess að halda utan um umsóknir sem berast um störf í ráðuneytinu. Í ljósi þess að innanríkisráðuneytið hafði viðurkennt mistök taldi umboðsmaður eftir standa það álitamál hvort A ætti hugsanlega rétt til skaðabóta. Umboðsmaður taldi það verða að vera verkefni dómstóla að fjalla um það álitaefni hvort skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð væru uppfyllt, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, og tók fram að hann hefði ekki tekið afstöðu til þess.