A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem stjórnsýslukæru hennar, sem laut að því hvernig staðið hefði verið að ráðningu skólastjóra í grunnskóla, var vísað frá vegna aðildarskorts. A var ekki á meðal umsækjenda um stöðuna.
Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 31. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður taldi að við mat á því hver gæti átt aðild að kærumáli á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 yrði að líta til þess hvort viðkomandi aðili teldist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta tengda hinni kærðu ákvörðun. Hann tók fram að í stjórnsýslurétti hefði almennt verið gengið út frá þeirri meginreglu að meðumsækjendur um starf gætu átt aðild að stjórnsýslumáli sem sprettur af ráðningunni en aðrir ekki. Í stjórnsýslukæru A til innanríkisráðuneytisins var ekki að finna efnislegan rökstuðning fyrir því hvers vegna A ætti lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins annan en að hún væri íbúi sveitarfélagsins. Í kvörtun A til umboðsmanns var heldur ekki að finna neinn efnislegan rökstuðning fyrir kæruaðild hennar að stjórnsýslumálinu. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins að vísa frá kæru A vegna aðildarskorts og lauk umfjöllun sinni um málið.