Skattar og gjöld. Fasteignagjöld.

(Mál nr. 6675/2011)

A kvartaði yfir því að sveitarfélag hefði hafnað umsókn hans um niðurfellingu á fasteignagjöldum. Í kvörtuninni kom m.a. fram að A teldi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fela í sér mismunun milli borgara eftir því hvort um væri að ræða tekjulitla einstaklinga vegna náms eða vegna elli og örorku.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það væri því almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi eða hvort og þá hvernig hún samrýmdist stjórnarskrá. Umboðsmaður fjallaði því ekki frekar um kvörtunina að því leyti sem hún beindist að efni ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 benti umboðsmaður A einnig á að væri hann ósáttur við meðferð sveitarfélagsins á umsókninni gæti hann freistað þess að bera erindið undir innanríkisráðuneytið, sbr. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Teldi hann sig enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins gæti hann leitað til sín á ný.