Skattar og gjöld. Gjald fyrir skráningarmerki ökutækis.

(Mál nr. 6633/2011)

A kvartaði yfir innheimtu Umferðarstofu á gjaldi til endurnýjunar á rétti til einkamerkis.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti að í kjölfar álits síns frá 13. febrúar 2007 í máli nr. 4843/2006 hefði 64. gr. a í umferðarlögum nr. 50/1987 verið breytt á þá leið að nú væri hvorttveggja upphaflegur réttur til einkamerkis sem og endurnýjun þess réttar að átta árum liðnum andlag skattlagningar. Löggjafinn hefði því tekið afstöðu til skattlagningarinnar. Umboðsmaður benti á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og umboðsmaður fjallaði því almennt ekki um það hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði samþykkt. Vegna ábendingar A um notkun hugtakanna „skattur“ og „gjald“ í lagasetningu vísaði umboðsmaður einnig til a-liðar 3. mgr. 3. gr. en tók þó fram að ljóst væri að í ýmsum tilvikum mætti löggjafinn gæta betur að þeirri hugtakanotkun. Með tilliti til þeirra fjölda mála sem bærust embættinu um þessar mundir teldi hann sér þó ekki unnt að fjalla frekar um það atriði.