Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6184/2010)

A kvartaði yfir úrskurði yfirskattanefndar þar sem því var hafnað að heimila frádrátt staðgreiðslu á móti dagpeningum á þeim grundvelli að ekki hefðu verið lögð fram gögn um ferða- og dvalarkostnað.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. október 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður vísaði til þess að ákvæði 1. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003 áskildi að sá sem fengi dagpeninga sýndi fram á með sannanlegum hætti að kostnaður sem greiðsla dagpeninga stæði fyrir væri ferða- og dvalarkostnaður og að það hefði verið staðfest í dómum Hæstaréttar. Í gögnum máls A var ekki að finna skjöl eða reikninga sem sýndu fram á að hann hefði orðið fyrir útlögðum kostnaði vegna dvalar og ferða í tengslum við vinnu sína eða hver sá kostnaður væri. Tiltekin fyrirliggjandi gögn taldi umboðsmaður ekki geta verið nægilegur grundvöllur fyrir sönnun á því að þartilgreindur kostnaður hefði verið inntur af hendi vegna ferða og dvalar í tengslum við vinnuna. Þá taldi umboðsmaður það forsendu þess að yfirskattanefnd gæti metið frádráttarbæran kostnað að álitum að hún hefði undir höndum gögn eða upplýsingar sem hún gæti haft hliðsjón af við matið en því var ekki til að dreifa í máli A. Í ljósi alls þessa taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við að yfirskattanefnd hefði hafnað kröfu A um frekari frádrátt en skattstjórinn í Reykjavík hafði heimilað. Þá fékk umboðsmaður ekki annað ráðið af skýringum yfirskattanefndar en að hún hefði tekið afstöðu til tiltekinnar varakröfu sem A setti fram í máli sínu hjá skattstjóra þótt úrskurðurinn bæri þess ekki merki með skýrum hætti og taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar út af því atriði. Umboðsmaður tók fram að upplýsingar um dagpeninga í leiðbeiningum ríkisskattstjóra vegna skattframtala virtust ekki endurspegla með skýrum hætti þær kröfur sem gerðar væru til skattaðila um framlagningu gagna sem sýna fram á útlagðan kostnað. Hins vegar væru lög og dómar rétthærri réttarheimildir og leiðbeiningarnar gætu því ekki leitt til þess að skattyfirvöldum væri heimilt að víkja frá kröfunum. Ef A teldi sig hafa breytt í samræmi við leiðbeiningarnar og hafa orðið fyrir fjártjóni af þeim sökum benti umboðsmaður honum á að úr því ekki leyst nema fyrir dómstólum. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað hins vegar að rita ríkisskattstjóra bréf og kanna afstöðu hans til þess hvort efni leiðbeininga embættisins um dagpeninga væri nægjanlega skýrt gagnvart framteljendum.