Námsstyrkir. Jöfnun á námskostnaði. Sjónarmið sem stjórnvaldsákvörðun verður byggð á. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 1236/1994)

A kvartaði yfir því að námsstyrkjanefnd hefði synjað henni um styrk samkvæmt lögum nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. A hafði sótt um styrk vegna náms í Verzlunarskóla Íslands, en umsókn hennar var synjað, með þeim rökum að hún gæti stundað sambærilegt nám við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar, þar sem lögheimili hennar var. A hélt því fram, að ekki væri um sambærilegt nám að ræða, auk þess sem Verzlunarskóli Íslands innritaði ekki nemendur á annað námsár og viðurkenndi ekki undirbúning frá framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar. Í álitinu rakti umboðsmaður þann tilgang laga um jöfnun námskostnaðar, að jafna verulegan aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum, einkum aðstöðumun vegna búsetu. Umboðsmaður tók fram, að við skýringu laganna yrði að taka mið af fjölgun framhaldsskóla og því, að með fjölgun skóla væri talin minni þörf fyrir styrki. Það skilyrði fyrir styrkveitingu að ekki væri kostur á sambærilegu námi í heimabyggð var tekið í lög nr. 23/1989, en það var áður í reglugerð settri samkvæmt eldri lögum um námsstyrki. Hins vegar benti umboðsmaður á, að það kæmi fram í lögskýringargögnum, að sérstaklega bæri að huga að því, að jöfnun væri tryggð í þeim tilvikum, þar sem nám við almennan framhaldsskóla væri í raun sérhæft, og teldist því ekki sambærilegt námi í heimabyggð. Af 37. gr. framhaldsskólalaga varð ráðið, að nám við Verzlunarskóla Íslands kynni að einhverju leyti að vera sérhæft. Taldi umboðsmaður að námsstyrkjanefnd hefði borið að kanna þetta atriði rækilegar en gert var og leita fanga víðar en til almennrar lýsingar í námsskrá framhaldsskóla, en fram kom í málinu að synjun nefndarinnar á umsókn A hefði verið byggð á almennri námslýsingu viðskiptadeildar. Þá benti umboðsmaður á, að ákvörðun námsstyrkjanefndar hefði verið vafasöm, með tilliti til þess, að nám í Verzlunarskóla Íslands sé skipulagt sem ein heild og nám A á fyrsta námsári framhaldsdeildar Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar hefði því ekki getað stytt nám hennar við Verzlunarskólann. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til námsstyrkjanefndar að taka umsókn A til meðferðar á ný, færi hún fram á það, og gæta við meðferð málsins þeirra sjónarmiða sem fram koma í álitinu.

I. Hinn 6. október 1994 leitaði til mín B, f.h. A. Kvartar hún yfir því, að námsstyrkjanefnd hafi synjað henni um styrk samkvæmt lögum nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. II. Í kvörtuninni og gögnum málsins kemur fram, að A, sem á lögheimili á Ólafsfirði og stundar nám í Verzlunarskóla Íslands, hafi sótt um styrk til námsstyrkjanefndar á grundvelli framangreindra laga. Samkvæmt 2. gr. laganna skulu íslenskir nemendur, sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, njóta réttar til námsstyrkja, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað, sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan. Nefndin synjaði erindi A og með bréfi, dags. 27. maí 1994, óskaði móðir hennar, B, eftir því að nefndin rökstyddi synjun sína og gerði grein fyrir þeim réttarheimildum, er hún byggði synjun sína á. Í svarbréfi nefndarinnar, dags. 30. júní 1994, vísar hún til þess lögbundna hlutverks nefndarinnar að meta, hvaða nemendur teljist styrkhæfir samkvæmt 2. gr. laganna. Þá kemur þar fram, að synjun um styrk sé á því byggð, að þar sem boðið sé upp á fyrsta árið í almennu framhaldsnámi í heimasveitarfélagi A, sem nefndin telji sambærilegt því námi, sem hún stundar, teljist hún ekki uppfylla skilyrði 2. gr. laganna. Í kvörtuninni til mín fellst móðir B ekki á framangreindan rökstuðning námsstyrkjanefndar vegna þess að nám hennar í Verzlunarskólanum sé ekki sambærilegt því framhaldsnámi, sem boðið sé upp á í framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar. Vísar hún til bréfs skólastjóra Verzlunarskóla Íslands, dags. 12. september 1994, þar sem fram kemur, að skólinn innriti ekki nemendur á annað námsár og að nemandi, sem lokið hefur fyrsta námsári við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar, hafi auk þess ekki lokið því námi, sem nemandi þarf að hafa lokið til þess að geta hafið nám á 2. námsári við Verzlunarskóla Íslands. III. Ég ritaði námsstyrkjanefnd bréf hinn 3. nóvember 1994 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Þá óskaði ég þess sérstaklega, að nefndin gerði grein fyrir þeim staðreyndum og lagasjónarmiðum, sem lögð voru til grundvallar þeirri niðurstöðu, að nám við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar og fyrsta ár Verzlunarskóla Íslands væri sambærilegt, sbr. 2. gr. laga nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Svar námsstyrkjanefndar barst mér með bréfi, dags. 21. nóvember 1994. Segir þar meðal annars: "Á bls. 101 í námsskrá handa framhaldsskólum frá júní 1990 er brautarlýsing fyrir viðskiptabraut (70 eininga nám) en þar segir: "Viðskiptabraut er ætlað að búa nemendur undir almenn skrifstofu- og verslunarstörf. Námi á brautinni lýkur með verslunarprófi og það veitir rétt til verslunarleyfis að öðrum skilyrðum fullnægðum. Eðlilegasta framhald til stúdentsprófs er á hagfræðibraut. Meðalnámstími er 4 ár." Við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar er boðið upp á nám á fyrsta ári viðskiptabrautar og er miðað við það að nemendur geti haldið áfram námi við Verkmenntaskólann á Akureyri án þess að tefjast nokkuð. Það að Verslunarskóli Íslands taki ekki við nemendum á annað ár frá framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar er einhliða ákvörðun Verslunarskólans. Að mati námsstyrkjanefndar uppfyllir [A] ekki það skilyrði 2. gr. laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði að geta ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili. Rétt er að taka fram að þegar [A] hefur lokið fyrsta ári í framhaldsskóla mun hún öðlast rétt til námsstyrks þar sem einungis er boðið upp á eins árs nám í framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar. Skiptir þá ekki máli í hvaða skóla hún stundar nám." Með bréfi, dags. 23. nóvember 1994, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við svar námsstyrkjanefndar. Athugasemdir hennar bárust mér með bréfi, dags. 7. desember 1994. Þar segir meðal annars: "Tilgangur laga nr. 23/1989 um jöfnun til náms er að draga úr fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum, sbr. greinargerð með frumvarpi til laganna. Í umræðum þeim sem fóru fram á Alþingi við setningu þeirra laga kemur glöggt fram að mikil áhersla var lögð á að menn gætu valið sér nám, óháð efnahag og búsetu. Því er ljóst að vilji löggjafans stóð til þess að jafna rétt ungmenna til náms. Með vísan til framangreinds og að teknu tilliti til orðalags 1. gr. l. 23/1989 má ætla að skýra beri takmörkunina í 2. gr. laganna þröngt, þar sem hún er undantekning frá þeirri meginreglu að allir eigi rétt á að stunda það nám sem hugur þeirra girnist, án þess að búseta hafi þar áhrif á kostnað. Þannig telst það hvorki í samræmi við anda laganna né löggjafarviljann að draga inn í matið á "sambærilegu" námi, nám utan heimabyggðar (3 ár), leggja það við framhaldsnámið í heimabyggð (1 ár) og bera þá útkomu saman við það nám sem námsmaður stundar. Auk þess, telst þessi aðferð andstæð beinu orðalagi 2. gr. l. 23/1989. Verkmenntaskóli Akureyrar telst utan heimabyggðar undirritaðrar. Því er ekki hægt að leggja það nám til grundvallar við mat á hvort um sambærilegt nám sé að ræða, þar sem í 2. gr. l. 23/1989 segir skýrt: "enda sé ekki hægt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili". Hinn 28. desember 1994 ritaði ég námsstyrkjanefnd bréf, er ítrekað var þann 24. mars 1995, þar sem nefndinni var gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum, ef einhverjar væru, á framfæri. Í bréfi nefndarinnar, dags. 8. maí 1995, kemur fram að hún telji ekki ástæðu til frekari athugasemda vegna málsins. Í áliti mínu, dags. 24. nóvember 1995, segir: "IV. Eins og fram hefur komið hér að framan, beinist kvörtun A að því mati námsstyrkjanefndar, að nám við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar teljist sambærilegt við nám á fyrsta námsári við Verzlunarskóla Íslands. Ennfremur gerir hún athugasemd við þá röksemdafærslu nefndarinnar að halda megi námi frá framhaldsdeildinni áfram á öðru ári í Verkmenntaskólanum á Akureyri án þess að tefjast nokkuð í námi. Réttar til námsstyrkja samkvæmt 2. gr. laga nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, njóta íslenskir nemendur, sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, sbr. nánar 2. gr. laganna. Samkvæmt 4. gr. skal námsstyrkjanefnd úthluta námsstyrkjum til styrkhæfra nemenda. Réttur til styrks er háður því skilyrði, að nemandi eigi þess ekki kost að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað, sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan, sbr. 2. gr. laganna. Framhaldsskólar eru, samkvæmt 1. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, menntaskólar, fjölbrautaskólar, iðnfræðsluskólar og skólar, sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Ennfremur framhaldsdeildir við grunnskóla, sem starfa samkvæmt heimild menntamálaráðuneytisins, sbr. 1. gr. laga nr. 72/1989. Reglugerð nr. 105/1990, um framhaldsskóla, tekur samkvæmt 1. gr. hennar til náms á framhaldsskólastigi í þeim skólum, er að framan getur, með þeim fyrirvara hvað sérskóla varðar, að sérskólar, sem starfa samkvæmt sérstökum lögum, eru undanskildir ákvæðum hennar. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, skulu nemendur í framhaldsskóla eiga völ á námsefni og kennslu í samræmi við þarfir sínar og óskir. Samkvæmt framangreindri reglugerð um framhaldsskóla skal nemendum tryggður aðgangur að framhaldsskóla. Í 50. gr. reglugerðarinnar er landinu hins vegar skipt í umdæmi, og skal hver nemandi eiga forgangsrétt til að sækja skóla í því umdæmi, þar sem hann á lögheimili, ef það nám, sem hann hyggst stunda, er þar í boði. Þá skulu nemendur, sem óska að stunda nám í sérskólum eða á sérhæfðum brautum, sem ekki er völ á í þeirra umdæmi, hafa sama rétt og aðrir til innritunar á þessar brautir, þar sem þær eru í boði sbr. 51. gr. reglugerðarinnar. Er því í framhaldsskólalögum gert ráð fyrir að nemendur eigi val um námsbraut, en jafnframt lögð áhersla á, að þeir stundi það nám í sínu umdæmi eða skólahverfi, sé þess kostur. Tel ég því skilyrði 2. gr. laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði í samræmi við meginhugsun umdæma- og hverfaskiptingar samkvæmt framhaldsskólalögum. Eins og að framan greinir, úthlutar námsstyrkjanefnd námsstyrkjum. Réttur til styrks er háður mati nefndarinnar og verður hún að byggja á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Í bréfi sínu, dags. 21. nóvember 1994, vísar námsstyrkjanefnd til námsskrár handa framhaldsskólum. Byggir hún synjun um námsstyrk til handa A á almennri námslýsingu viðskiptabrautar, auk þess sem hún vísar til þess, að miðað sé við það að nemendur geti lokið námi, sem hefst í framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar, við Verkmenntaskólann á Akureyri án þess að tefjast nokkuð. Umsókn A um styrk byggist á því, að nám við Verzlunarskóla Íslands sé sérhæft og frábrugðið því, sem hún á kost á að stunda frá lögheimili sínu. Verzlunarskóli Íslands starfar samkvæmt framhaldsskólalögum og tekur fyrrgreind reglugerð um framhaldsskóla til náms við skólann. Skólinn er því ekki sérskóli í skilningi framhaldsskólalaga. Lögin gera hins vegar, eins og fram hefur komið hér að framan, ráð fyrir sérhæfðum brautum innan hins almenna framhaldsskólakerfis. Þá hefur Verzlunarskóli Íslands, ásamt Samvinnuskólanum á Bifröst, ákveðna sérstöðu meðal framhaldsskóla, sbr. 37. gr. framhaldsskólalaga, sem m.a felst í heimild þeirra til að sérhæfa starf sitt eftir því, sem þörf krefur. Tilgangur núgildandi og eldri laga um jöfnun námskostnaðar, laga nr. 69/1972, er m.a. sá að jafna með styrkveitingum úr ríkissjóði þann aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum, sem verulegur er, að því leyti sérstaklega sem búseta veldur þessum nemendum misþungum fjárhagsbyrðum (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1089). Við setningu núgildandi laga var þó einnig leitast við að laga þau að breyttum aðstæðum, einkum vegna breytinga á framhaldsskólakerfinu varðandi fjölgun framhaldsskóla (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1090). Fjölgun skóla var þannig talin minnka þörf fyrir styrki og það skilyrði samkvæmt reglugerð nr. 278/1973, sem sett var samkvæmt lögum nr. 69/1972, að eigi sé kostur á sambærilegu námi í heimabyggð, var tekið í lögin. Hins vegar kemur fram í lögskýringargögnum, að ástæða var talin til að huga sérstaklega að því, að jöfnun væri tryggð í þeim tilvikum, þar sem nám við almennan framhaldsskóla væri í raun sérhæft. Í athugasemdum í greinargerð þess frumvarps, sem varð að lögum nr. 23/1989, segir svo um þetta atriði: "Frá setningu laganna hefur framhaldsskólum fjölgað mikið og er nú hægt að stunda framhaldsnám í öllum kjördæmum landsins. Nemendum hefur fjölgað að sama skapi. Námsframboð innan framhaldsskólanna, einkum hinna stærri, hefur orðið fjölbreyttara og sérhæfðara. Úthlutunarnefnd jöfnunarstyrkja hefur orðið að leggja mat á hvað teljast skuli "sambærilegt nám", en það orkar oft tvímælis. Fjölgun framhaldsskólanema og aukin sérhæfing skólanna hefur viðhaldið þörfinni fyrir jöfnunarstyrki." (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1089.) Nám, er ekki telst sambærilegt því, sem nemendur eiga kost á í heimabyggð sinni vegna sérhæfingar, verður, með vísan til framangreindra ummæla í lögskýringargögnum, að telja styrkhæft samkvæmt lögunum. Af 37. gr. framhaldsskólalaga verður ráðið, að nám við Verzlunarskóla Íslands kunni að einhverju leyti að vera sérhæft. Samkvæmt þeim lögskýringargögnum, sem áður hafa verið rakin, getur sérhæfing leitt til þess, að ekki sé um "sambærilegt" nám að ræða, í skilningi 2. gr. laga nr. 23/1989, við nám í öðrum framhaldsskólum. Tel ég, að námsstyrkjanefnd hafi borið að kanna þetta atriði rækilegar og leita í því skyni fanga víðar en til almennrar lýsingar í námsskrá. Hér er þess enn að gæta, að verslunarprófi á viðskiptabraut, samkvæmt lýsingu umræddrar námsskrár handa framhaldsskólum, varð ekki lokið frá framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar. Verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands virðist hins vegar byggjast á námi, sem er skipulagt sem ein heild, þannig að nám A við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar gat ekki stytt nám við Verzlunarskólann, ef hún vildi ljúka verslunarprófi þaðan. Var af þessum sökum vafasöm sú ákvörðun námsstyrkjanefndar, að synja umsókn A um námsstyrk, þar sem sú synjun fól í raun í sér takmörkun á vali á framhaldsskólum. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ástæða sé til að námsstyrkjanefnd taki umsókn A um námsstyrk til meðferðar á ný og gæti við úrlausn þess erindis þeirra sjónarmiða, sem ég hef gert grein fyrir hér að framan. V. Niðurstaða. Það eru tilmæli mín til námsstyrkjanefndar, að nefndin taki til nýrrar meðferðar umsókn A um styrk til náms við Verzlunarskóla Íslands, sbr. 2. gr. laga nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, komi fram um það ósk frá A. Verði við þá úrlausn gætt þeirra sjónarmiða, sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu." VI. Með bréfi, dags. 23. febrúar 1996, óskaði ég eftir því við námsstyrkjanefnd, að upplýst yrði, hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Svar námsstyrkjanefndar barst mér 29. mars 1996 en bréfinu fylgdi afrit af bréfi nefndarinnar til B, þar sem fyrrnefndum styrk var synjað. Jafnframt fylgdi greinargerð námsstyrkjanefndar til mín, vegna fyrrgreinds álits, dags. 21. mars 1996. Þar segir: "1. Um sambærilegt nám Bent er á að ástæða er talin til að huga sérstaklega að því að jöfnun sé tryggð í þeim tilvikum er nám við almennan framhaldsskóla væri í raun sérhæft. Bent er á að í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 23/1989 kemur fram að námsstyrkjanefnd hefur orðið að leggja mat á hvað teljast skuli "sambærilegt nám" en það orki oft tvímælis. Þegar fjallað er um hvað sé sambærilegt nám eru gerð nokkur skýr skil milli almenns bóknáms annars vegar og verknáms s.s. iðnnáms eða sérnáms sem lýkur með sérstökum starfsréttindum hins vegar. Hvað bóknám varðar eru þessi skil oft óljós, sérstaklega á 3. og 4. námsári. Bæði bóknámi og verknámi getur lokið með sama lokaprófi - stúdentsprófi enda þótt það fari fram á ólíkum brautum. (Dæmi: Málabraut, Íþróttabraut, Myndlistabraut). Séu umræddar brautir eða námsframboð ekki í heimabyggð getur komið til kasta nefndarinnar að úrskurða hvort um sambærilegt náms sé að ræða. Í þeim tilvikum hefur verið stuðst við námsskrá handa framhaldsskólum og hún lögð til grundvallar við mat nefndarinnar. Því var í fyrra svari Námsstyrkjanefndar vísað til hennar þegar nefndin rökstuddi að um sambærilegt nám væri að ræða á 1. ári bóknáms á framhaldsskólastigi. Það hefur verið mat námsstyrkjanefndar allt frá því verslunar- eða viðskiptabrautir voru settar á stofn við framhaldsskóla sem byggt er á ákvæðum laga og námsskrá að nám í viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi sé sambærilegt hvar sem er á landinu, þar sem slíkt nám er í boði. Fyrir þessari reglu hefur skapast um 20 ára hefð. 2. Um sérhæfingu Verzlunarskólans "Af 37. gr. framhaldsskólalaga verður ráðið, að nám við Verzlunarskóla Íslands kunni að einhverju leyti að vera sérhæft. Samkvæmt þeim lögskýringargögnum, sem áður hafa verið rakin, getur sérhæfing leitt til þess, að ekki sé um "sambærilegt" nám að ræða, í skilningi 2. gr. laga nr. 23/1989, við nám í öðrum framhaldsskólum. Tel ég, að námsstyrkjanefnd hafi borið að kanna þetta atriði rækilegar og leita í því skyni fanga víðar en til almennrar lýsingar í námsskrá." Fyrir setningu laga um viðskiptamenntun var litið á Samvinnuskólann og Verzlunarskóla Íslands sem sérskóla sem sérhæfðu sig í menntun á sviði verslunar og viðskipta. Með lögum um viðskiptamenntun nr. 51/1976 var viðskiptamenntun í landinu samræmd. Í 4. og 5. gr. þeirra laga var tilgreint hvert ætti að vera innihald náms. Í 6. gr. var tilgreint hvar námið færi fram þ.e. "í formi námsbrautar á framhaldsskólastigi, í fjölbrautaskólum, menntaskólum og framhaldsdeildum grunnskóla og hinsvegar í sérskólum, eftir því sem sérhæfing námsins krefst." Í 9. gr. laganna segir í 1. mgr.: "Samvinnuskólinn og Verzlunarskóli Íslands hafa rétt til þess að halda áfram að rækja það fræðslustarf, sem þeir hingað til hafa annast, og til að auka það og sérhæfa eftir því sem aðstæður leyfa og þörf krefur á hverjum tíma." Ákvæði þetta er síðan orðrétt tekið upp í 37. gr. framhaldsskólalaganna. Síðar í sömu grein segir: "Framlög ríkisins samkvæmt þessari grein miðast við að skólar þessir starfi í samræmi við meginstefnu 5. gr. þessara laga svo og skv. þeim reglugerðum, sem settar verða." Á grundvelli laga nr. 51/1976 var gerður samningur um fjárhagslegan stuðning ríkisins við Verzlunarskólann og viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi samræmd með útgáfu námsskrár sem framhaldsskólar sem bjóða viðskiptamenntun starfa eftir. Sú sérstaða í fræðslustarfi sem Verzlunarskólinn og Samvinnuskólinn hafa staðið fyrir var annars vegar almennt fræðslustarf í þágu atvinnulífsins í formi námskeiðahalds, sem þróast hefur yfir í öldungadeildir hjá Verzlunarskólanum. Hins vegar höfðu þessir skólar uppi áform um kennslu ofan framhaldsskólastigs. Samvinnuskólinn kennir nú vart lengur á framhaldsskólastigi heldur nær eingöngu viðskiptamenntun eftir stúdentspróf. Verzlunarskóli Íslands hefur tekið upp nám í tölvunarfræðum eftir stúdentspróf og undirbýr nú kennslu í viðskiptamenntun á háskólastigi. Með samþykkt 41. gr. laga nr. 57/1988 um framhaldsskóla voru lögin um viðskiptamenntun felld úr gildi. Ein lög um framhaldsskóla taka til náms á framhaldsskólastigi í stað a.m.k. 14 lagabálka áður. Í greinargerð með frumvarpi til laga um framhaldsskóla er fjallað um 37. gr. en þar segir: "Í þessari grein er staðfest að Samvinnuskólinn og Verslunarskóli Íslands hafi rétt til þess að reka áfram það fræðslustarf sem þeir hafa annast og til að auka það og sérhæfa eftir því sem aðstæður leyfa og þörf krefur. Gert er ráð fyrir því að staða þessara skóla verði sem líkust því sem hún er í dag. Í þessari grein eru tekin upp aðalatriði núgildandi laga um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi nr. 51/1976, en þessir tveir skólar hafa starfað á grundvelli þeirra laga." Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir breytingum á námsframboði skólanna er tekur til náms á framhaldsskólastigi, enda hefur sú ekki orðið raunin. Sérhæfing skólanna kemur fram í aukinni áherslu á símenntun og námi ofan framhaldsskólastigs. 3. Val á framhaldsskóla "Hér er þess enn að gæta, að verslunarprófi á viðskiptabraut, samkvæmt lýsingu umræddrar námsskrár handa framhaldsskólum, varð ekki lokið frá framhaldsdeild gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar. Verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands virðist hins vegar byggjast á námi, sem er skipulagt sem ein heild, þannig að nám [A] við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar gat ekki stytt nám við Verzlunarskólann, ef hún vildi ljúka verslunarprófi þaðan." Það er ekki í verkahring námsstyrkjanefndar að meta gæði skóla, þ.e. hvort einn skóli er öðrum fremri hvað kennslu eða námsárangur nemenda varðar. Kennsla í framhaldsskólum er byggð upp með mismunandi hætti. Í meginatriðum má skipta framhaldsskólum í tvennt, skóla sem kenna eftir áfangakerfi og hina sem byggja á bekkjarkerfi. Flestir framhaldsskólar eru reknir samkvæmt áfangakerfi en nokkrir stórir framhaldsskólar samkvæmt bekkjarkerfi. Má í því sambandi benda á auk Verzlunarskóla Íslands, Menntaskólann í Reykjavík, Menntaskólann við Sund, Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann á Laugarvatni. Bekkjarkerfisskólar setja sér yfirleitt þær reglur um inntöku að nemendur hefji nám á fyrsta ári, þótt undantekningar séu frá þeirri reglu, þ.e. að nemendur séu metnir inn á annað ár. Langstærstur hluti nemenda er í skólum sem starfa samkvæmt áfangakerfi. Áfangakerfi býr yfir mun meiri sveigjanleika, þannig eiga nemendur sem hverfa frá námi í bekkjarkerfisskólum greiðan aðgang að námi í áfangaskólum ef þeir hverfa frá námi í bekkjarskólum af einhverjum ástæðum. Nám í Ólafsfirði er skipulagt í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri eftir áfangakerfi og eftir námsskrá sem er sambærileg við 1. árs nám alls staðar á landinu og veitir aðgang að 2. árs námi í nær öllum áfangaskólum. Hins vegar veitir það nám ekki sjálfkrafa aðgang að skólum sem starfa eftir bekkjarkerfi eins og áður segir. Hið sama gildir um alla þá nemendur sem stunda nám í áfangaskólum. Við úthlutun styrkja til jöfnunar á námskostnaði hefur ríkt sá skilningur að sé boðið upp á tiltekið nám í heimabyggð sé nemandi ekki styrktur til að sækja sambærilegt nám annað, þótt mismunur sé á tegund skóla þ.e. að annar skólinn sé rekinn samkvæmt bekkjarkerfi og hinn samkvæmt áfangakerfi. Námsstyrkjanefnd hefur talið að slík túlkun væri í fullu samræmi við skýlaust orðalag 2. gr. laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði þ.e. að meta hvað sé sambærilegt nám en ekki hvað sé sambærilegur skóli. Það hindrar ekki nemendur í því að velja sér skóla fjarri heimabyggð, en því fylgir ekki jafnframt styrkur til að stunda slíkt nám. Óneitanlega fælist í því þversögn að byggja upp og reka nám í heimabyggð en styrkja jafnframt nemendur til að stunda sambærilegt nám utan heimabyggðar. Slíkt er að mati nefndarinnar andstætt lögum um jöfnun námskostnaðar. Niðurstaða nefndarinnar: 1. Almennt verslunarnám og bóknám á framhaldsskólastigi í Verzlunarskóla Íslands er sambærilegt við nám á viðskiptabrautum og almennum bóknámsbrautum annarra framhaldsskóla. 2. Almennt nám í framhaldsdeild 1. árs hindrar ekki eðlilega framvindu bóknáms til stúdentsprófs eða verslunarprófs í framhaldsskólum. 3. Réttur til styrkgreiðslu byggist á því að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili þótt með því kunni að felast takmörkun á vali framhaldsskóla. Á grundvelli þessa treystir nefndin sér ekki til að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun styrkgreiðslu vegna 1. árs náms í Verzlunarskóla Íslands." VII. Ég ritaði námsstyrkjanefnd á ný bréf, dags. 30. apríl 1996, í framhaldi af fyrrgreindu bréfi nefndarinnar. Í niðurlagi bréfs míns tók ég fram, að ég teldi "að við úrlausn námsstyrkjanefndar í tilefni af nýrri umsókn frá [A] [hefði] verið gætt þeirra sjónarmiða, sem rakin [voru] í umræddu áliti mínu". Ég tók síðan fram, að ég hefði "ekki tekið afstöðu til efnislegrar niðurstöðu nefndarinnar í málinu".