Svör við erindum. Efnisleg svör.

(Mál nr. 6670/2011)

A kvartaði yfir svörum sem hann fékk í símtali við Tryggingastofnun Ríkisins við fyrirspurn um gildistöku laga, afturvirkni þeirra og réttindi sín samkvæmt þeim. Í kvörtuninni kom fram að starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins kannaðist ekki við löggjöfina og hefði ekki getað veitt A fullnægjandi svör.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi ekki ljóst hvort erindi A lyti að starfsháttum hjá Tryggingastofnun ríkisins eða hvort hann væri að óska eftir því að umboðsmaður Alþingis veitti sér svör við spurningunum. Umboðsmaður tók fram að það væri ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara fyrirspurnum almenns eðlis. Þá taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka afstöðu til þess hvað fram fór í samtali A við starfsmann tryggingastofnunar en benti honum á að ef hann teldi ástæðu til að gera athugasemdir við starfshætti stofnunarinnar væri rétt að beina þeim til forstjóra hennar. Enn fremur benti umboðsmaður A á að beina skriflegu erindi til tryggingastofnunar. Teldi hann svör stofnunarinnar við skriflegu erindi ófullnægjandi eða þá að hann yrði að öðru leyti ósáttur við viðbrögð stofnunarinnar gæti hann leitað til sín á nýjan leik. Þá myndi umboðsmaður taka afstöðu til þess hvort skilyrðum væri fullnægt til að taka málið til meðferðar.