Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6626/2011)

Hinn 8. september 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist svör við bréfum sem hann sendi bæjarstjóra Reykjanesbæjar varðandi barnaverndarmál og skráningu upplýsinga hjá lögreglu, dags. 9. og 20. júní og 7. júlí 2011. Þá kvartaði A yfir því að hafa ekki borist niðurstaða Barnaverndarstofu í tilefni af athugun stofnunarinnar á máli hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. október 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum Reykjanesbæjar kom m.a. fram að A hefði átt marga fundi með bæjarstjóra og bæjarritara, verið boðið að hitta bæjarritara þegar bæjarstjóri var upptekinn og hefði ítrekað verið boðið að bera mál sín upp við bæjarráð. Þá hefði honum verið ritað bréf 15. júlí 2011 þar sem fram hefði komið að skráning upplýsinga hjá lögreglu heyrði ekki undir sveitarfélagið. Í skýringum Barnaverndarstofu kom fram að mál A væri til meðferðar og niðurstöðu væri að vænta innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfs sem A hefði verið sent um gang málsins. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar og lauk málinu en tók fram að drægist afgreiðsla Barnaverndarstofu umfram þann tíma sem hafði verið tilgreindur væri honum heimilt að leita til sín að nýju.