Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6640/2011)

Hinn 17. september 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist svör frá landlækni í kjölfar athugasemda sem hann gerði við umsagnir matsaðila um beiðni hans um endurupptöku máls hjá landlækni vegna læknamistaka sem taldi hafa verið gerð í krossbandsaðgerð sem hann gekkst undir.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2011, með vísan til a-liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum landlæknisembættisins til umboðsmanns vegna málsins var gerð grein fyrir framgangi málsins og að með bréfi, dags. 13. október 2011, hefði A verið gefinn kostur á að koma að skýringum er vörðuðu athugasemdir hans við hæfi tiltekins læknis. Þá kom fram að málið væri mikið að vöxtum og að einhver tími mundi líða þar til álit í málinu lægi fyrir. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að aðhafast vegna kvörtunarinnar að sinni og lauk meðferð sinni á málinu. Hann tók hins vegar fram að ef A teldi frekari óeðlilegar tafir verða á málinu gæti hann leitað til sín að nýju.