Svör við erindum.

(Mál nr. 6503/2011)

Hinn 28. júní 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki fengið svör við formlegri fyrirspurn til Akureyrarbæjar, dags. 20. desember 2010, þar sem m.a. var óskað eftir rökstuðningi fyrir hundabanni í Grímsey. A ítrekaði fyrirspurnina 21. júní 2011 en hafði aðeins fengið senda staðfestingu á móttöku erindanna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. október 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins stóð barst umboðsmanni afrit af svari Akureyrarbæjar til A, dags. 5. október 2011, þar sem m.a. kom fram að fyrir mistök hefði fyrirspurninni ekki verið svarað en að honum hefði nú verið sent svar. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.