Vinnueftirlit.

(Mál nr. 6454/2011)

A kvartaði yfir úrskurði velferðarráðuneytisins um að vísa frá stjórnsýslukæru hennar á ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um að taka ekki til efnislegrar meðferðar kvörtun hennar yfir einelti á vinnustað og fyrirkomulagi vinnuverndarráðgjafar á viðkomandi vinnustað í kjölfar þess.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í úrskurði velferðarráðuneytisins var lagt til grundvallar að Vinnueftirlit ríkisins hefði ekki heimild til að taka ákvarðanir um ágreining milli einstakra starfsmanna og vinnuveitenda þeirra um skyldur atvinnurekendans heldur gætu þolendur eineltis og aðrir starfsmenn sem teldu einhverju ábótavant í starfsemi atvinnurekandans komið á framfæri ábendingu þar að lútandi. Þá var lagt til grundvallar að þeir sem kæmu slíkum ábendingum á framfæri við vinnueftirlitið teldust ekki aðilar máls sem af því sprytti hjá stofnuninni og að þeir hefðu því ekki kærurétt vegna viðbragða hennar við ábendingunni. Þeir gætu einungis vakið athygli velferðarráðuneytisins á því og ráðuneytið eftir atvikum brugðist við umkvörtuninni á grundvelli eftirlitsheimilda sinna. Eftir að hafa kynnt sér kvörtunina með tilliti til gildandi lagaumhverfis taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við afstöðu ráðuneytisins að þessu leyti. Hann tók þó fram að það ætti aðeins við þegar eineltismál færu í þann farveg að leitað væri aðkomu Vinnueftirlits ríkisins. Annað kynni hins vegar að eiga við þegar starfsmaður ríkisstofnunar leitaði til ráðuneytis sem fer með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir vegna viðvarandi vanda hjá lægra settu stjórnvaldi. Umboðsmaður lauk meðferð sinni á málinu en ákvað að rita velferðarráðherra bréf til að vekja almenna athygli á því að af kvörtunum þeirra, sem hefðu á undanförnum árum leitað til hans vegna eineltis sem þeir töldu sig upplifa á vinnustað, yrði ráðið að þeir fyndu fyrir vissu úrræðaleysi þar sem ekki væri gert ráð fyrir aðkomu vinnueftirlitsins að því upplýsa og meta hvort einelti hefði í reynd átt sér stað. Ábendingin var sett fram til þess að ráðuneytið gæti tekið afstöðu til þess hvort ástæða væri til að haga lögum eða reglugerðum með öðrum hætti en umboðsmaður tók sjálfur enga afstöðu til þess. Umboðsmaður gerði einnig athugasemdir við að niðurstaða velferðarráðuneytisins í máli hefði verið orðuð með þeim hætti að málinu væri vísað frá þar sem vinnueftirlitið skorti heimild að lögum til að fjalla um kvörtun A. Hann taldi að réttara hefði veri að annaðhvort staðfesta ákvörðun vinnueftirlitsins eða setja fram beinan rökstuðning um aðildarskort A. Að lokum taldi umboðsmaður að málshraðareglu stjórnsýsluréttar hefði ekki verið gætt í málinu en úrskurður lá ekki fyrir fyrr en 18 mánuðum eftir að velferðarráðuneytið fékk málið til meðferðar.