Vinnueftirlit.

(Mál nr. 6638/2011)

A kvartaði yfir því að brotið væri á réttindum starfsmanna X hf. varðandi hvíldartíma og matarhlé. Auk þess mátti ráða af kvörtuninni að hún teldi aðbúnað á vinnustaðnum ófullnægjandi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 4. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að X hf. væri almennt hlutafélag sem starfaði á grundvelli reglna sem gilda að einkarétti. Efni kvörtunarinnar féll því utan starfssviðs umboðsmanns og hann taldi ekki skilyrði til að taka hana til frekari meðferðar. Hann benti A hins vegar á að hún gæti leitað til stéttarfélags síns og leitað réttar síns með atbeina þess. Þá kynni hún að geta freistað þess að leita með erindi sitt til Vinnueftirlits ríkisins, teldi hún vinnuveitanda sinn ekki fullnægja þeim kröfum sem leiða af lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Að fenginni afstöðu vinnueftirlitsins og eftir atvikum velferðarráðuneytisins gæti hún leitað til sín á nýjan leik.