Skaðabætur. Skilyrði bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 69/1995. Bótanefnd.

(Mál nr. 6251/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Með ákvörðuninni hafnaði bótanefndin umsókn A um bætur úr ríkissjóði vegna líkamsárásar sem hann varð fyrir á þeim grundvelli að skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 hefði ekki verið uppfyllt þar sem hann hefði ekki gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns á meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu. Í lögregluskýrslu kom fram að A kærði árásina til refsingar og bótaskyldu. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort A hefði með þeirri yfirlýsingu í reynd sett fram bótakröfu sem uppfyllti að formi og efni til skilyrði 1. mgr. 6. gr.

Umboðsmaður rakti að hvorki af texta 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 né af lögskýringargögnum yrði ályktað að krafa tjónþola um skaðabætur úr hendi brotamanns þyrfti fortakslaust að fullnægja form- og efnisskilyrðum lagaákvæða um einkaréttarkröfur í sakamálum. Hann benti á að bótanefnd væri stjórnsýslunefnd og að um málsmeðferð hennar giltu m.a. ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Þegar tjónþoli hefði að mati bótanefndar ekki lagt að öllu leyti fram fullnægjandi gögn eða upplýsingar til að unnt væri að afgreiða umsókn hans um bótagreiðslu leiddi af rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu bótanefndar, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga, að henni bæri að tilkynna málsaðilanum um það hvaða gögn skorti eða eftir atvikum leiðbeina honum um að tilgreina kröfur sínar betur. Umboðsmaður taldi ljóst að túlka yrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 á þann hátt að fyrst og fremst þyrfti að liggja nægilega fyrir að tjónþoli hefði, áður en hann hefði sótt um bætur frá bótanefnd, krafist bóta úr hendi brotamanns. Ekki yrði áskilið í upphafi máls hjá bótanefnd að slík bótakrafa hefði að efni til verið ítarlega rökstudd og sundurliðuð enda væri ekkert því til fyrirstöðu að nefndin óskaði eftir frekari gögnum og upplýsingum frá tjónþola við mat sitt. Niðurstaða umboðsmanns varð sú að ekki lægju fyrir haldbær rök fyrir því að yfirlýsing A við skýrslutöku hjá lögreglu teldist ekki til bótakröfu í merkingu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995.

Umboðsmaður taldi að ákvörðun bótanefndar í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög. Hann mæltist til þess að mál A yrði tekið til afgreiðslu að nýju kæmi fram ósk um það frá honum og að leyst yrði úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Hann beindi jafnframt þeim almennu tilmælum til bótanefndar að hafa sjónarmiðin framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála.

I. Kvörtun.

Hinn 14. desember 2010 leitaði A til mín og kvartaði yfir ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 frá 10. maí 2010 í máli nr. 376/2009. Með ákvörðuninni hafnaði bótanefndin umsókn A um bætur úr ríkissjóði vegna líkamsárásar sem hann varð fyrir 28. desember 2007 á þeim grundvelli að skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, hefði ekki verið uppfyllt þar sem hann hefði ekki gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns á meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu.

Í kvörtun A er því haldið fram að í 6. gr. laga nr. 69/1995 sé ekki gerð sú krafa að leggja þurfi fram bótakröfu meðan á rannsókn málsins stendur heldur komi sú krafa eingöngu fram í greinargerð með lögunum. Hann hafi gert kröfu um bætur á rannsóknarstigi, þ.e. í skýrslutöku 4. febrúar 2008, enda þótt hann hafi ekki tilgreint ákveðna fjárhæð í því sambandi. Ótímabært hafi verið að krefjast tiltekinnar fjárhæðar þar sem of skammt hafi verið liðið frá árásinni þegar málið var fellt niður hjá lögreglu til að unnt hafi verið að meta varanlegar afleiðingar hennar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 29. nóvember 2011.

II. Málavextir.

Hinn 28. desember 2007 varð A, sem þá var 18 ára gamall, fyrir líkamsárás og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann hlaut skurðsár víða á líkama og sauma þurfti 87 spor. Í lögregluskýrslu, dags. sama dag, kemur fram að lögreglumenn hafi rætt við tvo nafngreinda aðila vegna málsins að beiðni rannsóknarlögreglumanns.

Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 4. febrúar 2008, kom A þann dag á rannsóknardeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að leggja fram kæru fyrir líkamsárásina. Í lögregluskýrslunni segir m.a. eftirfarandi:

„[A] kærir árásina til refsingar og bótaskyldu seka/seku, náist til hans/þeirra. Hann telur að hann geti alla vega þekkt tvo árásarmannanna í sjón. [A] er kynnt að hann geti gert bótakröfu í málinu á meðan á rannsókn stendur. Fær hann leiðbeiningablað, þar sem veittur er 14 daga frestur til að skila inn kröfunni.

Kæranda var kynntur réttur hans til greiðslu bóta úr hendi ríkissjóðs sem þolanda brots á alm.hegningarl. skv. 18. gr. laga nr. 69/1995.“

A mætti næst í skýrslutöku og myndflettingu í sakamyndasafni hinn 29. febrúar 2008. Hinn 23. maí það ár veitti hann jafnframt lögmannsstofunni X umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna slyssins gagnvart bótaskyldum aðilum. Árásarmennirnir fundust hins vegar ekki og málið var fellt niður hjá lögreglu á grundvelli 1. mgr. 76. gr. þágildandi laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. A var tilkynnt um þær lyktir málsins með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 18. júní 2008.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2009, lagði lögmaður A fram kröfu um greiðslu bóta úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, að fjárhæð samtals 3.261.332 kr. Með ákvörðun, dags. 10. maí 2010, hafnaði bótanefnd kröfunni. Í ákvörðuninni sagði m.a. eftirfarandi:

„Í gögnum lögreglunnar kemur fram að þegar umsækjandi kom á lögreglustöð þann 4. febrúar til að leggja fram kæru, hafi honum verið kynntur réttur hans til bóta úr ríkissjóði eins og kveðið er á um í 18. gr. tilvitnaðra laga um greiðslu á bótum til þolenda afbrota og honum veittur venjubundinn 14 daga frestur til að skila inn bótakröfu. Rannsókn málsins lauk í júní 2008 samanber bréf lögreglustjóra þess efnis og verður ekki greint að slík krafa hafi þá verið búin að berast lögreglu. Þess ber að geta að í maí 2008 veitti umsækjandi lögmanni umboð til að fara með mál sitt en það varð þó ekki til að krafa yrði lögð fram. Verður að öllu framanrituðu virtu ekki annað greint en umsækjanda eða umboðsmanni hans hafi verið í lófa lagið að leggja fram kröfu um skaðabætur eins og skilyrt er í tilvitnaðri 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 á þeim tíma sem rannsókn málsins stóð yfir. Ekki verður séð að tilvikið geti fallið undir undanþáguákvæði 3. mgr. 6. gr. og verður því að hafna umsókninni.“

Lögmanni A var tilkynnt um niðurstöðu bótanefndar með bréfi, dags. 25. maí 2010, og var þar tekið fram að ef nýjar upplýsingar eða gögn kæmu fram sem gæfu tilefni til endurskoðunar á henni skyldi leggja þau fyrir nefndina innan árs frá því að þau gögn eða upplýsingar lágu fyrir. Áður hafði A sjálfum verið kynnt niðurstaðan og hann óskað eftir því með tölvubréfi, dags. 14. maí 2010, að niðurstaðan yrði endurskoðuð og þá með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Í fundargerðarbók bótanefndar 15. júní 2010 kemur fram að endurupptöku málsins hafi verið hafnað þar sem ekkert hafi komið fram sem ekki hafi þegar legið fyrir þegar nefndin tók ákvörðun í málinu. Sú niðurstaða var tilkynnt A með símtali.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995.

Í tilefni af erindi A var bótanefnd ritað bréf, dags. 5. janúar 2011, þar sem þess var óskað að bótanefndin léti mér í té afrit af öllum gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust mér með bréfi, dags. 24. janúar 2011.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins ritaði ég bótanefndinni bréf, dags. 28. febrúar 2011, þar sem ég rakti m.a. ákvæði laga nr. 69/1995 og tilteknar breytingar sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 118/1999. Ég óskaði þess síðan, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu veittar upplýsingar og skýringar vegna máls A. Svör bárust með bréfi bótanefndar, dags. 12. maí 2011. Ég tel óþarfi að rekja þessar fyrirspurnir og svör nefndarinnar að öðru leyti en því sem hefur þýðingu fyrir athugun mína eins og hún er afmörkuð í kafla IV.1 hér að aftan.

Ég rakti m.a. að af ákvörðun bótanefndar væri ljóst að nefndin hefði lagt til grundvallar að síðara skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, þ.e. að tjónþoli verði að gera kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns, hefði ekki verið uppfyllt í málinu. Rannsókn málsins hefði hins vegar verið lokið þar sem brotamaðurinn í máli A væri ekki þekktur og hefði ekki fundist. Í lögregluskýrslu, dags. 4. febrúar 2008, kæmi fram að A kærði árásina „til refsingar og bótaskyldu seka/seku, [næðist] til hans/þeirra“.

Í ljósi þessa óskaði ég eftir rökstuddri afstöðu bótanefndar til þess hvort sá áskilnaður, sem kæmi fram í lögskýringargögnum, að bótakrafa yrði að hafa verið lögð fram á meðan mál væri til rannsóknar hjá lögreglu ætti sér fullnægjandi stoð í ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, í tilvikum sambærilegum við mál A, þ.e. þegar tjónvaldur væri ekki þekktur. Þar hefði ég m.a. í huga það orðalag ákvæðisins að krafa yrði að hafa verið gerð um greiðslu skaðabóta „úr hendi brotamanns“. Í svarbréfi bótanefndar, dags. 12. maí 2011, var þessari spurningu svarað með eftirfarandi hætti:

„Bótanefnd getur fallist á að fyrirmælin í ákvæðum síðari hluta 1. mgr. 6. gr. séu ekki að öllu leyti skýr og athugasemdir í frumvarpi geti verið misvísandi. T.d. segir í athugasemdum um 9. gr. að þótt tjónvaldur sé ókunnur, ósakhæfur eða ófundinn skuli greiða bætur ef bótanefnd telur að refsiverður verknaður hafi verið framinn, en í lokamálsgrein athugasemdanna segir að [...] krafa um að brot hafi verið kært til lögreglu gildi einnig í þessum tilvikum. Ekki er þar minnst á skilyrði síðari liðar 1. mgr. 6. gr. Bótanefnd hefur þó jafnan litið svo á að með hugtakinu „brotamaður“ sé átt huglægt við þann sem var valdur að því tjóni sem leiði til kröfu um skaðabætur, hvort sem nafn hans sé þekkt eða ekki. Hefur nefndin þar í huga að reynslan hefur sýnt, að þrátt fyrir að sá sem var valdur að broti og tjóni sé ókunnur við upphaf rannsóknar, þá beinist grunur oft að tilteknum einstaklingi eftir því sem rannsókn málsins þróast. Í þessu tiltekna máli þá má ráða af frumskýrslu lögreglunnar að tiltekinn einstaklingur hafi verið grunaður um verknaðinn þótt ekki hafi tekist að upplýsa málið. Einnig hefur nefndin haft í huga þá meginreglu laganna að þrátt fyrir að tjónvaldur sé ókunnur, þá skuli vera samræmi á milli kröfu tjónþola hans á hendur tjónvaldi og kröfu hans gagnvart ríkissjóði og því verði að gera sömu kröfur um að skilyrði laganna séu uppfyllt að öðru leyti. Þessi krafa um samræmi kemur fram í skýringum við 1. gr. laganna og var meðal annars staðfest af Hæstarétti í máli nr. 494/2004.“

Ég óskaði einnig upplýsinga um hvort bótanefnd hefði í framkvæmd sinni skýrt orðalag 1. mgr. 6. gr. í öllum tilvikum svo að ekki væri nægjanlegt að hafa áskilið sér rétt til skaðabóta hjá lögreglu, t.d. þegar endanlegar upplýsingar um tjón eða sundurliðun bótakröfu lægju ekki fyrir áður en rannsókn lögreglu lyki. Ég hefði þar einkum í huga að í kvörtun A væri því haldið fram að hann hefði ekki haft forsendur til að gera kröfur um tiltekna bótafjárhæð á meðan á rannsókn málsins stóð enda hefði málið verið fellt niður hálfu ári eftir að árásin átti sér stað og ekki væri hægt að meta varanlegt tjón fyrr en að a.m.k. einu ári liðnu frá bótaskyldum atburði. Ég óskaði jafnframt eftir því að fá afhent afrit af slíkum ákvörðunum bótanefndar, hefði bótanefnd fylgt slíkri skýringu í framkvæmd sinni. Í svarbréfi bótanefndar sagði eftirfarandi um þetta atriði:

„Að framansögðu hefur bótanefnd jafnan litið svo á að fylgja bæri skilyrðum 1. mgr. 6. gr. og gera kröfu um að bótakrafa væri lögð fram á meðan á rannsókn máls stæði. Það hefur þó aldrei verið gerð sú krafa að bótakrafan væri mjög nákvæmlega sundurliðuð, þar sem öllu jafnan er aðeins veittur 14 daga frestur af hálfu lögreglunnar til að skila kröfunni inn, rétt eins og var í þessu máli. Eðli máls samkvæmt hefur ekki verið gerð krafa um að lögð væri fram krafa um bætur vegna tjóns sem væri ekki að fullu ljóst, en á það skal minnt að í miklum meirihluta líkamsárásarmála eru bætur fyrst og fremst ákvarðaðar á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga og bætur matskenndar og kröfurnar þurfa því öllu jöfnu ekki mikla sundurliðun. Þá má einnig nefna í þessu sambandi að í 7. gr. laganna eru [settar] takmarkanir á þeim fjárhæðum sem greiddar eru. Fram til 1. júlí 2009 voru aðeins greiddar miskabætur á milli kr. 100.000 og kr. 600.000. Eftir 1. júlí 2009 verða miskabætur aðeins greiddar á milli kr. 400.000 og kr. 600.000. Nefndin taldi að þetta mál væri þannig vaxið að bótaréttur [A] hefði fyrst og fremst verið á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Varanlegt tjón hefði orðið að meta síðar og hefðu skilyrði laganna verið uppfyllt hefði nefndin án efa ákvarðað honum bætur á fyrrnefndu ákvæði skaðabótalaga.“

Svarbréf bótanefndar, dags. 12. maí 2011, var sent lögmanni A til athugasemda með bréfi, dags. 23. maí 2011. Engar athugasemdir bárust. Með símtali 7. nóvember 2011 var þess óskað að bótanefnd léti mér í té afstöðu bótanefndar til endurupptökubeiðni sem A lagði fram með tölvubréfi, dags. 14. maí 2010. Í tölvubréfi bótanefndar, dags. 8. nóvember 2011, segir eftirfarandi um það:

„Þann 15. júní 2010 var skráð í fundargerðarbók nefndarinnar að endurupptöku málsins hafi verið hafnað þar sem ekkert hafi komið fram sem ekki hafi þegar legið fyrir þegar nefndin tók ákvörðun í málinu samanber 24.gr. l. 37/1993. Svo virðist hinsvegar sem láðst hafi að tilkynna málsaðila þetta bréflega, líklega vegna þess að undirritaður fór í sumarleyfi ekki löngu síðar. Skráð hefur verið að honum hafi verið tjáð niðurstaðan í símtali, líklega nokkrum dögum síðar, en því miður virðist hafa láðst að kynna niðurstöðuna með formlegum hætti.“

IV. Álit.

1. Afmörkun athugunar.

Bótanefnd hafnaði umsókn A um bætur úr ríkissjóði vegna líkamsárásar sem hann varð fyrir 28. desember 2007 á þeim grundvelli að skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, hefði ekki verið uppfyllt þar sem hann hefði ekki gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns á meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu. Í lögregluskýrslu, dags. 4. febrúar 2008, kemur fram að A „[kæri] árásina til refsingar og bótaskyldu seka/seku, náist til hans/þeirra“. Að þessu virtu hefur athugun mín beinst að því hvort telja verði að A hafi með þessari yfirlýsingu í reynd sett fram bótakröfu uppfyllir að formi og efni til skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995.

2. Var synjun bótanefndar á umsókn A í samræmi við lög?

Lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota eru nr. 69/1995. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna, enda hafi brotið verið framið innan íslenska ríkisins. Í sérstökum tilvikum er heimilt að greiða bætur fyrir tjón sem leiðir af broti sem framið var utan íslenska ríkisins, enda sé tjónþoli búsettur á Íslandi eða íslenskur ríkisborgari. Í II. kafla laganna kemur fram hvaða tjón bótum samkvæmt lögunum er ætlað að bæta og fellur þar m.a. undir líkamstjón, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 2. gr., og miski, varði brot ekki við XXV. kafla almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laganna.

Skilyrði fyrir greiðslu bóta á grundvelli laga nr. 69/1995 er að finna í 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. er það annars vegar skilyrði fyrir greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og hins vegar að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Í ákvörðun bótanefndar í máli A var lagt til grundvallar að síðara skilyrðinu hefði ekki verið fullnægt en samkvæmt skýringum nefndarinnar var ekki tekin afstaða til þess hvort brotið hefði verið kært án ástæðulauss dráttar.

Í athugasemdum greinargerðar við 6. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 69/1995 segir eftirfarandi:

„Í 1. mgr. er lagt til að það verði skilyrði þess að ríkissjóður greiði bætur að brot, sem leiðir til tjóns, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu til greiðslu skaðabóta úr hendi tjónvalds. Miðað er við að þetta eigi einnig við þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann finnist ekki eða sé ósakhæfur. Þegar ekki er unnt að fjalla um bótakröfu í sakamáli, t.d. vegna þess að tjón liggur ekki fyrir þegar sakamálið er rekið fyrir dómi, refsiþætti málsins lýkur hjá lögreglustjóra eða með viðurlagaákvörðun eða játningardómi eða ef óhæfileg bið eftir meðferð sakamálsins tefur meðferð bótakröfunnar, er hægt að sækja um bætur beint til bótanefndar, enda hafi bóta verið krafist við rannsókn málsins. Í slíkum tilvikum er ekki nauðsynlegt fyrir tjónþola að höfða einkamál á hendur tjónvaldi vegna bótakröfunnar. Sama gildir ef sakamál er ekki höfðað gegn tjónvaldi, svo sem vegna sönnunarstöðu máls eða ósakhæfis, málið er afgreitt með ákærufrestun eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Í 2. mgr. er lagt til að það verði skilyrði þess að ríkissjóður greiði bætur að umsókn um þær hafi borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið.“ (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3323-3324.)

Í athugasemdunum er þannig í engu vikið að því hvort og þá hvaða formkröfur verða gerðar til framsetningar tjónþola á bótakröfu sinni hjá lögreglu.

Í XXVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, áður XX. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er fjallað um form og efni einkaréttarkrafna í sakamálum. Í 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 er áskilið að brotaþoli, og hver sá annar sem telur sig hafa öðlast kröfu að einkarétti á hendur sakborningi, setji fram kröfu sína á þann hátt að fram komi atriði sem þar eru tilgreind í sex stafliðum. Hvorki af texta 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 né af lögskýringargögnum verður dregin sú ályktun að krafa tjónþola um skaðabætur úr hendi brotamanns þurfi fortakslaust að fullnægja þessum form- og efnisskilyrðum lagaákvæða um einkaréttarkröfur í sakamálum.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995 kemur fram að þegar bótakröfu hefur verið ráðið til lykta með dómi skuli greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dóminum, sbr. þó ákvæði 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Þetta ákvæði á aðeins við um þá aðstöðu að tjónþoli hafi í reynd sett fram bótakröfu við rannsókn sakamáls sem fullnægir framangreindum skilyrðum laga nr. 88/2008, áður laga nr. 19/1991, og sú krafa hefur verið dæmd að efni til í sakamálinu. Af ákvæðinu verður hins vegar ekki dregin sú ályktun að krafa tjónþola um skaðabætur þurfi í merkingu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 að uppfylla í öllum tilvikum skilyrðum laga nr. 88/2008 um einkaréttarkröfur í sakamálum.

Samkvæmt framangreindu tel ég að skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 um að tjónþoli geri kröfu um skaðabætur úr hendi brotamanns verði að túlka á sjálfstæðum forsendum með tilliti til þeirra markmiða sem slíkt fyrirkomulag þjónar samkvæmt þeim lögum. Þar kann jafnframt að skipta máli, eins og bótanefndin bendir sjálf á í skýringum til mín frá 12. maí 2011, hvort brotamaður er þekktur eða ekki og einnig hvers eðlis tjónið er.

Við frekari túlkun á skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 verður jafnframt að hafa í huga að bótanefndin er ekki dómstóll sem leysir aðeins úr skaðabótakröfum á grundvelli réttarfarsreglna um skýra og ljósa kröfugerð. Nefndin er stjórnsýslunefnd sem starfar á grundvelli laga nr. 69/1995 og fer með það opinbera hlutverk að taka endanlega ákvörðun um greiðslu bóta á grundvelli laganna á stjórnsýslustigi, sbr. 13. og 16. gr. laganna. Nefndarmenn eru skipaðir af ráðherra, sbr. 13. gr., og kostnaður vegna meðferðar máls hjá bótanefnd greiðist að meginreglu úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Um málsmeðferð nefndarinnar gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins, en einnig hefur ráðherra, með stoð í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 69/1995, sett reglugerð nr. 280/2008, um starfshætti bótanefndar.

Þegar tjónþoli hefur að mati bótanefndar ekki lagt að öllu leyti fram fullnægjandi gögn eða upplýsingar til þess að unnt sé að afgreiða umsókn hans um bótagreiðslu leiðir af rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu bótanefndar, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að henni ber að tilkynna málsaðilanum um það hvaða gögn skorti eða eftir atvikum leiðbeina honum um að tilgreina kröfur sínar betur. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 69/1995 eru bótanefnd jafnframt fengnar sérheimildir til rannsóknar máls. Í 1. mgr. kemur fram að nefndinni sé heimilt að krefja tjónþola um hvers konar upplýsingar sem hún telur þörf á við meðferð umsóknar hans, þar á meðal sé henni heimilt að kveðja tjónþola á fund nefndarinnar. Jafnframt sé nefndinni heimilt að krefjast upplýsinga frá öðrum þeim er þekkja kunna til málavaxta. Samkvæmt 2. mgr. getur nefndin, þegar um líkamstjón er að ræða, óskað eftir því að tjónþoli láti lækni rannsaka sig. Nefndinni er heimilt að fá afrit úr sjúkraskrá tjónþola enda liggi fyrir samþykki hans. Samkvæmt 3. mgr. er nefndinni jafnframt heimilt að krefjast yfirheyrslna fyrir dómi. Þá kemur fram í 4. mgr. 14. gr. að verði tjónþoli ekki innan tilskilins frests við óskum nefndarinnar um framlagningu tiltekinna upplýsinga eða gagna sé nefndinni heimilt að ljúka meðferð máls á grundvelli þeirra gagna er fyrir liggja. Slíkt stendur því þó væntanlega ekki í vegi að málið verði síðar tekið til nýrrar meðferðar leggi málsaðili fram fullnægjandi gögn og upplýsingar.

Að framangreindu virtu tel ég ljóst að túlka verði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 með þeim hætti að fyrst og fremst þurfi að liggja nægilega fyrir að tjónþoli hafi áður en umsókn er lögð fram krafist bóta úr hendi brotamanns. Ekki verður áskilið í upphafi máls hjá bótanefnd að slík bótakrafa hafi að efni til verið ítarlega rökstudd og sundurliðuð, eins og raunar er rakið í skýringarbréfi nefndarinnar til mín, enda er ekkert því til fyrirstöðu að nefndin óski eftir frekari gögnum og upplýsingum frá tjónþola við mat sitt.

Fyrir liggur að bókað er í lögregluskýrslu, dags. 4. febrúar 2008, að A „[kæri] árásina til refsingar og bótaskyldu seka/seku, náist til hans/þeirra“. Óumdeilt er að árásarmenn A fundust ekki. Þá liggur fyrir að tjón A var óljóst á þessum tímapunkti og gat eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst beinst að miskabótum í merkingu 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og nefndin vísar sjálf til, sbr. skýringar hennar til mín, dags. 12. maí 2011.

Það er því samkvæmt öllu framansögðu niðurstaða mín að ekki liggi fyrir haldbær rök af hálfu bótanefndarinnar um að á skorti að tilvitnuð yfirlýsing A 4. febrúar 2008 hafi talist til bótakröfu í merkingu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 eins og atvikum var háttað. Að því virtu þarf hér ekki að taka afstöðu til þess hvort lagaákvæðið áskilji að slík bótakrafa hafi verið sett fram við rannsókn máls, enda var lagt til grundvallar hér að framan að það hefði verið gert í tilviki A. Þar sem ákvörðun bótanefndarinnar frá 10. maí 2010 var aðeins á því reist að A hefði í reynd ekki sett fram bótakröfu í merkingu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 er það niðurstaða mín að sú ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við lög.

V. Niðurstaða.

Það er niðurstaða mín að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, frá 10. maí 2010, í máli A hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

Það eru tilmæli mín til bótanefndar að hún taki mál A til afgreiðslu að nýju, komi fram ósk um það frá honum, og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu. Ég beini jafnframt þeim almennu tilmælum til nefndarinnar að hafa umrædd sjónarmið framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála.