Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6709/2011)

A, sem var atvinnulaus og stundaði nám, leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að kostnaður vegna framfærslu hvers hælisleitanda næmi, samkvæmt útreikningum Útlendingastofnunar, hærri fjárhæð en atvinnuleysisbætur. Kvörtunin beindist jafnframt að því að atvinnuleysisbætur dygðu ekki til framfærslu og vísaði A til 76. gr. stjórnarskrár og neysluviðmiða sem birt eru á heimasíðu velferðarráðuneytisins því til stuðnings.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti viðeigandi ákvæði laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og reglugerðar nr. 548/2006, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, og vakti athygli A á að löggjafinn tæki ákvörðun um fjárhæð atvinnuleysisbóta en hefði jafnframt veitt ráðherra ákveðna heimild til að hækka atvinnuleysisbætur við sérstakar aðstæður. Umboðsmaður benti jafnframt á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns Alþingis ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Þar sem löggjafinn hafði með skýrum hætti tekið afstöðu til fjárhæðar atvinnuleysisbóta taldi umboðsmaður bresta skilyrði fyrir því að hann gæti tekið málið til frekari athugunar að þessu leyti. Þá taldi umboðsmaður að með hliðsjón af forsendum neysluviðmiða velferðarráðuneytisins fælu þau ekki í sér sjálfstæðan rétt eða viðurkenningu stjórnvalda á lágmarksfjárhæð til framfærslu. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina að því leyti en benti A á að hann gæti freistað þess að óska eftir afstöðu velferðarráðuneytisins til álitaefnisins.