Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6732/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði og að segja upp námsmannasamningi við hann. Kvörtunin laut enn fremur að aðgangi að gögnum hjá Vinnumálastofnun og málsmeðferðartíma hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Þá kvartaði A yfir ákvörðun félagsþjónustu sveitarfélags um að veita sér einungis fjárhagsaðstoð sem nemur helmingi af hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem mál A var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og ekki höfðu orðið tafir á meðferð málsins umfram þann tveggja mánaða tíma sem nefndinni er settur til afgreiðslu mála í taldi umboðsmaður bresta skilyrði laga fyrir því að hann gæti tekið til frekari meðferðar þann þátt erindisins sem laut að meðferð máls A hjá Vinnumálastofnun og úrskurðarnefndinni. Umboðsmaður tók þó fram að hann hefði málsmeðferðartíma úrskurðarnefndarinnar til almennrar athugunar og hefði ritað velferðarráðuneytið bréf vegna þess. Þá benti hann A á að færi málsmeðferðartími nefndarinnar fram úr þeim tíma sem lög gerðu ráð fyrir gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 benti umboðsmaður A á að, eins og kæmi fram í ákvörðun félagsþjónustu um fjárhæð fjárhagsaðstoðar, gæti hann skotið ákvörðuninni til fjölskylduráðs sveitarfélagsins, sbr. 31. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu, og að þá niðurstöðu gæti hann kært til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á máli A en benti honum á að fengnum niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála gæti hann leitað til sín á ný teldi hann sig enn beittan rangsleitni.