Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi.

(Mál nr. 6698/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og óskaði þess að hann tæki til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort ákvæði reglugerðar nr. 1095/2005, um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður, hefðu nægjanlega stoð í lögum nr. 77/1998, um lögmenn.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð að ákvæði laga nr. 77/1998 bæri að túlka á þá leið að ákvæðið útilokaði með öllu heimild prófnefndar til að láta einstaklinga, sem lokið hafa fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi, gangast undir próf í íslenskri lögfræðigrein. Hann fékk því ekki séð að skýra bæri ákvæði laga nr. 77/1998 þannig að óheimilt væri að láta prófraun samkvæmt 7. gr. laganna ná til greina bóknáms og eftir atvikum verkmenntunar sem kynnu með einhverjum hætti að hafa verið hluti af fullnaðarnámi í lögfræði við lagadeild háskóla hér á landi. Umboðsmaður benti jafnframt á að samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 77/1998 má héraðsdómslögmaður gæta hagsmuna aðila í máli fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli. Umboðsmaður rakti síðan að í málflutningi fyrir héraðsdómi reyndi eðli máls samkvæmt annaðhvort á einkamálaréttarfar eða sakamálaréttarfar. Í kjölfar slíks málareksturs kynni enn fremur að reyna á fullnusturéttarfar. Þá yrði ekki betur séð en að samning lögfræðilegrar álitsgerðar og skjalagerðar tengdist rækslu slíkra lögmannsstarfa. Umboðsmaður fékk því ekki betur séð en að umræddar námsgreinar tengdust rækslu lögmannsstarfa og rúmuðust því innan ákvæðis 7. gr. laga nr. 77/1998. Umboðsmaður taldi sig því ekki geta fullyrt annað en að ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 1095/2005 ættu sér næga stoð í lögum nr. 77/1998.

Vegna athugasemda í kvörtun A um atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar tók umboðsmaður fram að ljóst væri að þær athugasemdir lytu að efni lagasetningar með tilliti til stjórnskipunarlaga. Umboðsmaður benti í því sambandi á að starfssvið umboðsmanns Alþingis næði ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög eru í andstöðu við stjórnarskrá. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði til að fjalla nánar um erindi A að því leyti og lauk athugun sinni á málinu. Hann tók einnig fram að hann teldi erindið ekki gefa sér tilefni til að fjalla um ákvæði laga nr. 77/1998 og reglugerðar nr. 1095/2005 á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.