Hinn 24. ágúst 2011 kvartaði A sf. yfir því að nefnd um dómarastörf hefði vísað frá kvörtun félagsins yfir hæfi tiltekins héraðsdómara til að dæma í einkamáli sem félagið átti aðild að. Kvörtunin beindist einnig að því að nefndin hefði ekki svarað bréfi A sf. frá 8. júlí 2011 þar sem þess var óskað að málið yrði tekið til skoðunar á ný.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Umboðsmaður fékk ekki betur séð en að sá lagagrundvöllur sem A sf. vísaði til í bréfi sínu frá 8. júlí 2011 hefði komið til skoðunar í áliti nefndarinnar í máli félagsins. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til athugasemda við þá afstöðu nefndarinnar sem kom fram í skýringum hennar vegna málsins, þ.e. að nefndin liti svo á að bréfinu hefði verið svarað 25. júlí 2011 með því að senda A sf. afrit af álitinu.
Þá vísaði umboðsmaður til þess að af ákvæðum 24. og 27. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og athugasemdum greinargerðar við ákvæðin yrði ráðið að hlutverk nefndar um dómarastörf væri að fjalla um kvartanir vegna starfa dómara, annarra en dómsathafna. Það væri því ekki hlutverk nefndarinnar að fjalla um eiginlegar dómsathafnir dómara. Umboðsmaður benti á að úrlausn um hæfi dómara væri ráðið til lykta með úrskurði sem sætti kæru til Hæstaréttar, sbr. 6. og 143. gr. laga nr. 91/1991. Úrskurður dómara um vanhæfi væri dómsathöfn og sætti því ekki endurskoðun nefndar um dómarastörf. Þá væri það ekki á valdsviði nefndarinnar að meta réttmæti ákvörðunar dómara um að víkja ekki sæti af sjálfsdáðum. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til athugasemda við þá niðurstöðu nefndarinnar að vísa frá kvörtun A sf. á þeim grundvelli að ákvörðun um hæfi væri dómsathöfn og lauk umfjöllun sinni um málið.