Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 6416/2011)

Hinn 28. apríl 2011 kvartaði A yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki svarað erindi sínu frá 22. febrúar 2011 sem varðaði námslán.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 4. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindi A hefði verið svarað með bréfi, dags. 12. maí 2011. Í tilefni af eftirgrennslan umboðsmanns um afgreiðslu á kvörtun sem A lagði fram 28. apríl 2011 yfir því að umsögn Lánasjóðs íslenskra námsmanna um upphaflegt erindi hans til ráðneytisins fæli í sér trúnaðarbrot gegn sér kom hins vegar einnig fram sú afstaða að kvörtunin væri ekki tæk til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu þar sem LÍN væri sjálfstæð stofnun sem lyti ekki boðvaldi ráðherra. Umboðsmaður taldi rétt að leita skýringa á þessu viðhorfi og barst af því tilefni svar ráðuneytisins þar sem fram kom sú afstaða að ráðuneytið færi með með veitingar- og agavald samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gagnvart framkvæmdastjóra LÍN en að ekki væri fallist á að með umsögninni hefði verið brotið gegn trúnaði við A. Þar sem kvörtun A til umboðsmanns laut að því að erindi hans hefði ekki verið svarað lauk umboðsmaður málinu en tók ekki afstöðu til niðurstöðu ráðuneytisins um trúnaðarbrotið. Hann tók hins vegar fram að ef A leitaði til sín vegna niðurstöðunnar myndi hann taka afstöðu til þess hvort lagaskilyrði væru fyrir athugun sinni á því atriði og benti A jafnframt á að honum kynni að vera fært að leita til Persónuverndar með kvörtun. Þá gæti hann leitað til sín að fenginni niðurstöðu Persónuverndar teldi hann sig beitta rangsleitni með henni.