Fangelsismál.

(Mál nr. 6383/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að staðfesta ákvörðun fangelsismálastofnunar um að synja umsókn A um reynslulausn að liðnum helmingi dæmds refsitíma samkvæmt dómi kveðnum upp af erlendum dómstóli.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Að fengnum skýringum innanríkisráðuneytisins í málinu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að ganga út frá öðru en að þær ástæður og röksemdir sem A byggði umsókn sína um reynslulausn á hefðu komið til álita við mat náðunarnefndar og ráðuneytisins á beiðni hans, þ.e. breytt líferni hans, alvarleg veikindi móður hans og álit umboðsmanns þjóðþings þess ríkis þar sem hann var dæmdur til refsingarinnar um að brotið hefði verið á réttindum hans á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi þar í landi. Það hefði hins vegar verið mat þeirra að aðstæðurnar teldust ekki til „mjög sérstakra persónulegra ástæðna“ í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat.

Umboðsmaður aflaði upplýsinga um það á hvaða forsendum ákvarðanir voru reistar í málum tveggja einstaklinga sem A vísaði til í kvörtun sinni er höfðu fengið reynslulausn að liðnum helmingi dæmds refsitíma og jafnframt annarra í þeirri stöðu. Að þeim upplýsingum fengnum taldi umboðsmaður sig ekki heldur hafa forsendur til að álykta að úrlausnir ráðuneytisins og fangelsismálastofnunar í máli A hefðu brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður taldi enn fremur ekki unnt að fullyrða að ráðuneytið hefði þrengt óhóflega eða afnumið skyldubundið mat sitt á persónulegum aðstæðum A við úrlausn málsins. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu innanríkisráðuneytisins, sbr. tillögu náðunarnefndar, um að skilyrðum 2. málsl. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 49/2005, hefði ekki verið fullnægt til að verða við beiðni A um reynslulausn að liðnum helmingi dæmds refsitíma. Hann benti A hins vegar á að í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 49/2005, væri sérstaklega kveðið á um að forstöðumaður fangelsis gæti að fengnu samþykki fangelsismálastofnunar veitt fanga skammtímaleyfi til dvalar utan fangelsis, m.a. í þeim tilgangi að heimsækja náinn ættingja eða annan nákominn í fjölskyldu fanga sem er alvarlega sjúkur að fengnu samþykki viðkomandi eða hans nánasta aðstandanda.

Að lokum fékk umboðsmaður ekki annað séð en að röksemdir og málsmeðferð sem komu fram í annarri umsókn sem A lagði síðar fram um reynslulausn hefðu verið þær sömu og í fyrra málinu. Hann taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins að synja þeirri beiðni.

Umboðsmaður ákvað að ljúka athugun sinni á málinu. Hann ákvað þó að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann kom þeirri ábendingu á framfæri að þrátt fyrir að ekki hefði verið skylt samkvæmt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að veita A kost á að tjá sig um tillögu náðunarnefndar áður en ráðuneytið úrskurðaði í málinu, þar sem afstaða hans til forsendna nefndarinnar lá fyrir með fullnægjandi hætti, hefði það verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og að slíkt væri fallið til að leggja traustari grundvöll að hinni matskenndu ákvörðun ráðuneytisins. Þar sem innanríkisráðuneytið hugðist taka upp nýtt verklag og senda framvegis tillögu náðunarnefndar til umsagnar málsaðila taldi umboðsmaður þó ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa atriðis. Umboðsmaður taldi einnig að innanríkisráðuneyti hefði borið að gera skýrar grein fyrir því hvers vegna það taldi ekki heilsuleysi móður A til „mjög sérstakra persónulega ástæðna“ í skilningi laga nr. 49/2005 og að borið hefði að fjalla með skýrari hætti um röksemd í stjórnsýslukæru A um þá afstöðu umboðsmanns þjóðþings þess ríkis þar sem A var dæmdur til refsingar að brotið hefði verið á réttindum hans er hann sat í gæsluvarðhaldi.