Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 6667/2011)

A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og óskuðu þess að hann tæki til athugunar ýmis atriði sem voru nánar tilgreind í kvörtuninni og tengjast hruni efnahagslífsins.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

A og B óskuðu þess m.a. að umboðsmaður tæki til athugunar hvort lög nr. 90/1989, um aðför, lög nr. 90/1991, um nauðungarsölu, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara, stæðust stjórnarskrá, mannréttindayfirlýsingu Þjóðabandalagsins sem Ísland undirritaði árið 1946 og EES-samninginn, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu við stjórnarskrá og/eða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefði undirgengist. Umboðsmaður taldi sér því ekki unnt að fjalla um þessi atriði í kvörtuninni.

A og B óskuðu þess einnig að umboðsmaður tæki til sjálfstæðrar skoðunar bréf fjármálafyrirtækisins X til nafngreinds lögmanns í tilefni af hópmálsókn árið 2009. Af því tilefni benti umboðsmaður á að kvörtunin beindist að þessu leyti að starfsemi einkaaðila. Þar sem starfssvið umboðsmanns Alþingis nær eingöngu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga taldi umboðsmaður ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að taka þennan hluta kvörtunarinnar til frekari meðferðar.

Þá óskuðu A og B þess að umboðsmaður tæki til sjálfstæðrar skoðunar bréf fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins til stjórnar Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. október 2008. Þar sem bréfið var sent utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér ekki unnt að fjalla um þennan þátt kvörtunarinnar.

A og B óskuðu enn fremur eftir því að umboðsmaður tæki til sjálfstæðrar rannsóknar tiltekin ummæli framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Þar sem umboðsmaður fékk ekki séð að erindi A og B lyti að því leyti að tiltekinni ákvörðun í máli þeirra heldur að almennum ummælum framkvæmdastjórans og þar sem hann taldi einnig óljóst í hvaða samhengi orðin voru sett fram taldi hann, í ljósi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan hluta erindisins.

A og B fóru jafnframt fram á að umboðsmaður rannsakaði lögmæti tilmæla sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands beindu til fjármálafyrirtækja 30. júní 2010 vegna gengistryggingarákvæða í lánasamningum. Í ljósi ársfrests 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér ekki unnt að fjalla um þennan þátt kvörtunarinnar en upplýsti A og B um að hann hefði nú þegar til athugunar kvörtun einstaklings um hliðstæð atriði. Umboðsmaður tók fram að hann myndi hafa upplýsingar í erindi A og B til hliðsjónar við þá athugun og að niðurstaða hennar yrði birt á heimasíðu umboðsmanns.

A og B fóru einnig fram á að umboðsmaður tæki til athugunar hvers vegna dómarar héraðsdóms og Hæstaréttar dæmdu ekki eftir tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður gæti því ekki tekið niðurstöðu dóms til endurskoðunar og ekki heldur skipt sér af því hvernig dómarar höguðu meðferð mála. Því taldi umboðsmaður sér ekki unnt að fjalla frekar um þennan lið kvörtunarinnar.

Í niðurlagi kvörtunarinnar óskuðu A og B eftir því að umboðsmaður athugaði hvers vegna Neytendastofa hefði, að þeirra mati, ekkert aðhafast til að tryggja hag neytenda í 17 ár og vísuðu í því sambandi til tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Umboðsmaður fékk ekki ráðið af þessum hluta kvörtunarinnar að hann beindist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli A og B. Orðalagið virtist umboðsmanni einnig helst verða skilið þannig með honum væri óskað eftir almennum svörum og þar með um almennar lagalegar skyldur Neytendastofu. Umboðsmaður benti á að það væri ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta fólki í té, án þess að um væri að ræða tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem málsaðili telur fela í sér rangsleitni í sinn garð, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum fyrirspurnum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði að lögum til að taka þennan hluta erindisins til meðferðar sem kvörtun.

Að lokum tók umboðsmaður fram að ef ákvarðanir stjórnvalda um yfirfærslu útlána til þeirra banka sem voru stofnaðir eftir bankahrunið 2008 vörðuðu beinlínis lán eða aðrar skuldbindingar A og B og þeir hefðu leitað eftir afstöðu stjórnvalda til að veita sér aðgang að upplýsingum um þær væri þeim frjálst að leita til sín að nýju og hann myndi þá taka afstöðu til þess hvort slík kvörtun uppfyllti skilyrði laga til að hann gæti fjallað um hana. Umboðsmaður taldi jafnframt ekki rétt, m.a. í ljósi málastöðu embættisins og afmörkunar á starfssviði umboðsmanns, að aðhafast vegna erindis A og B á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.