Gjafsókn.

(Mál nr. 6713/2011)

A kvartaði yfir samskiptum sínum við innanríkisráðuneytið í tengslum við beiðni sem hann lagði fram um að sérstök nefnd yrði sett til að fjalla um umsókn hans um gjafsókn. A hafði lýst þeirri skoðun sinni í tölvubréfi til innanríkisráðuneytisins að allir sem kæmu að gjafsóknarnefnd fyrir hönd ráðuneytisins, Dómarafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands væru vanhæfir til afgreiðslu málsins. Í ljósi þess hvernig lög mæla fyrir um skipun gjafsóknarnefndar, þ.e. innanríkisráðuneytið skipar nefndina, m.a. eftir tilnefningum frá félögunum tveimur, taldi ráðuneytið ómögulegt að skipa í nefndina menn sem A teldi ekki vanhæfa og þar með hefði enga þýðingu að setja sérstaka nefnd í málinu. Ráðuneytið tilkynnti A því að það teldi hann hafa dregið beiðni sína til baka með tölvubréfinu og var honum veittur kostur á að koma að athugasemdum við þann skilning ráðuneytisins. Kvörtun A beindist að þessari tilkynningu ráðuneytisins og fram kom að hann óskaði enn eftir skipun sérstakrar nefndar til að fjalla um beiðni sína.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð að A hefði komið athugasemdum sínum á framfæri við ráðuneytið eða lagt fram nýja gjafsóknarbeiðni. Því varð ekki annað séð en að ráðuneytið hefði hvorki fjallað um né tekið afstöðu til þeirra athugasemda sem hann gerði við þá tilkynningu ráðuneytisins sem kvörtunin laut að. Í ljósi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður málið ekki geta komið til athugunar hjá sér fyrr en ráðuneytið hefði tekið afstöðu til athugasemdanna. Hann benti A jafnframt á að ef hann hefði ekki sent ráðuneytinu athugasemdir sínar kynni honum að vera fær sú að leið að óska þess að málið yrði tekið til nýrrar afgreiðslu. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að A gæti leitað til sín að fenginni endanlegri niðurstöðu innanríkisráðuneytisins, og eftir atvikum gjafsóknarnefndar.