Heilbrigðismál. Sóttvarnir.

(Mál nr. 6689/2011)

A kvartaði yfir því að dóttir sín hefði verið bólusett án samþykkis forráðamanns. Þá krafðist hún þess að starfshættir varðandi bólusetningar í skólum yrðu teknir til endurskoðunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að leita eftir afstöðu velferðarráðuneytisins til álitaefnisins og þá eftir atvikum til svara landlæknisembættisins vegna athugasemda sem hún hafði sent embættinu. Væri hún enn ósátt að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins væri henni heimilt að leita til sín á ný.