Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6719/2011)

A kvartaði yfir því að lántakendum hjá fjármálafyrirtækjum í eigu hins opinbera væri mismunað eftir því hjá hvaða fjármálafyrirtæki viðkomandi væri með lán. Í því sambandi vísaði A til þess að sér stæðu ekki til boða sömu úrræði hjá Íbúðalánasjóði og X hf. byði viðskiptavinum sínum upp á.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera málið formlega undir Íbúðalánasjóð til afgreiðslu og eftir atvikum til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 4. og 42. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Að fenginni úrlausn úrskurðarnefndarinnar gæti hún leitað til sín á nýjan leik teldi hún sig órétti beitta. Umboðsmaður benti jafnframt á að X hf. teldist einkaréttarlegur aðili.

Í ljósi lagareglna um starfssvið umboðsmanns Alþingis taldi umboðsmaður því ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að taka til frekari meðferðar þann hluta erindisins er beindist að X hf. Að lokum benti umboðsmaður A á að henni kynni að vera fært að leita til umboðsmanns skuldara vegna mála sinna, sbr. 1. gr. laga nr. 100/2010.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að færi svo að A leitaði til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og/eða umboðsmanns skuldara og teldi sig rangindum beitta að fenginni úrlausn þeirra gæti hún leitað til sín vegna þess.