Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 6648/2011)

A kvartaði yfir túlkun innanríkisráðuneytisins á 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um brottflutning ökutækja og þeirri afstöðu ráðuneytisins að að brottflutningur bifreiðarinnar X hefði ekki verið á ábyrgð lögreglunnar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Bifreið A var lagt í merkt bílastæði. Hún var fjarlægð af dráttarbílaþjónustu að beiðni þeirra sem höfðu stæðið til afnota. Dráttarbílaþjónustan gerði lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðvart um brottflutninginn og gerði A að greiða tæplega 16 þús. kr. til að leysa bifreiðina út. A lagði fram kvörtun hjá ríkislögreglustjóra og krafðist greiðslu kostnaðarins ásamt dráttarvöxtum. Ríkislögreglustjóri framsendi kvörtunina til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að lögreglan hefði ekki haft aðkomu að málinu. A kvartaði þá til innanríkisráðuneytisins sem taldi ekki tilefni til að aðhafast í málinu.

Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins að brottflutningur bifreiðarinnar hefði ekki verið á ábyrgð lögreglu. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu ráðuneytisins að 110. gr. umferðarlaga kæmi ekki í veg fyrir rétt lóðareiganda til að ráðstafa munum, bifreiðum eða öðru sem skilið hefði verið eftir á lóð hans í óleyfi án aðkomu lögreglu eða annarra yfirvalda, svo fremi sem hann kannaðist við verknaðinn og bæri ábyrgð á honum sjálfur, og að það sama gilti um merkt stæði utan við fjölbýlishús enda tilheyrði bifreiðastæðið tiltekinni eign. Ágreiningur um slíkt væri hins vegar einkaréttarlegur og heyrði ekki undir ráðuneytið.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að hann fengi ekki séð að A hefði leitað til til lögreglu vegna meints refsilagabrots þeirra er létu fjarlægja bifreiðina og því hefði athugun sín ekki lotið að viðbrögðum lögreglu að því leyti.