Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 6703/2011)

A kvartaði yfir að starfsháttum velferðarráðuneytisins í tengslum við kvörtun A yfir meðferð landlæknisembættisins á kvörtunarmáli.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 4. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í viðtali starfsmanns umboðsmanns við A kom fram að A hefði leitað til ráðuneytisins í október 2011 til þess að leggja fram kvörtun yfir málsmeðferð landlæknisembættisins og rætt við tvo starfsmenn. Síðar hefði hann hins vegar fengið upplýsingar um það að málið hefði hvorki verið skráð né tekið til meðferðar. Það fékkst staðfest í símtali starfsmanns umboðsmanns við ráðuneytið. Eftir að A lagði fram kvörtun sína hjá umboðsmanni bárust þær upplýsingar frá velferðarráðuneytinu að um mistök hefði verið að ræða og að mál A hefði nú verið skráð. Þá var A tilkynnt um mistökin og skráningu málsins. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast að sinni og lauk málinu en tók fram að bærist A ekki svar frá ráðuneytinu innan sex vikna gæti hann leitað til sín með kvörtun þar að lútandi.