Menntamál. Leikskólar.

(Mál nr. 6546/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni um að syni hans, B, yrði heimiluð leikskóladvöl í Reykjavík þrátt fyrir að lögheimili hans væri skráð í öðru sveitarfélagi. Í kvörtuninni kom fram að A og móðir B færu sameiginlega með forsjá hans og að umgengni væri nokkuð jöfn. Lögheimili B væri hins vegar skráð í heimasveitarfélagi móður. Mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti synjun Reykjavíkurborgar síðar með úrskurði.

Umboðsmaður alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem B var ekki íbúi í Reykjavíkurborg í skilningi 3. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 13. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og átti því ekki rétt samkvæmt lögum til að innritast í leikskóla í Reykjavík taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að staðfesta ákvörðun Reykjavíkurborgar. Umboðsmaður benti A hins vegar á að þrátt fyrir að börn í stöðu B ættu ekki lögvarinn rétt á leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags síns yrði ekki séð að lög stæðu í vegi því að sveitarfélag ákvæði engu að síður að veita þeim þá þjónustu. Slíkt væri ekki heimilað í gildandi reglum Reykjavíkurborgar en af skýringum sveitarfélagsins vegna málsins og opinberum fundargerðum þess væri þó ekki ljóst hvort einhvern tímann hefði verið rætt sérstaklega hvort börnum í sömu stöðu og B, þ.e. í sameiginlegri forsjá og jafnri umgengni, ætti að heimila leikskóladvöl. Umboðsmaður benti A því að á þann möguleika að bera erindi sitt upp við fulltrúa í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.

Umboðsmaður ákvað þó að rita Reykjavíkurborg bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að í tilkynningu til A um lyktir málsins hefði ekki komið fram með nægilega skýrum hætti að afgreiðsla sviðsstjóra leikskólasviðs á málinu hefði eingöngu falist í því að mæla ekki með breytingu á gildandi reglum um leikskólaþjónustu en ekki endanlegri ákvörðun um að gera ekki breytingu á þeim. Í samræmi við almenna leiðbeiningarskyldu og sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti taldi umboðsmaður jafnframt að Reykjavíkurborg hefði átt að leiðbeina A um að hann gæti freistað þess að bera erindi sitt undir fulltrúa í menntaráði sem á þessum tíma fór með leikskólamál í borginni. Að lokum gerði umboðsmaður athugasemdir við að A hefði ekki verið leiðbeint um kæruleið til menntamálaráðuneytisins.