Menntamál. Leikskólar.

(Mál nr. 6734/2011)

A, sem átti barn fætt árið 2010, kvartaði yfir því að Reykjavíkurborg hefði ákveðið að börn fædd það ár skyldu að svo stöddu ekki innrituð í leikskóla borgarinnar. Kvörtunin laut einnig að málsmeðferð við töku ákvörðunarinnar, sér í lagi því að málið hefði ekki verið tekið til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Af gögnum málsins varð ráðið að kvörtunin væri byggð á fréttum og almennum yfirlýsingum borgaryfirvalda en ekki að tekin hefði verið tekin afstaða með beinum hætti til innritunar á barni A.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem kæruheimild 30. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla, tekur til ákvarðana um rétt einstakra barna til aðgangs að leikskóla benti umboðsmaður A á að fá formlega ákvörðun Reykjavíkurborgar varðandi innritun á barni hennar í leikskóla borgarinnar og leita til mennta- og menningarmálaráðuneytisins með þá ákvörðun. Þar til afstaða ráðuneytisins til umkvörtunarefnisins lægi fyrir taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði laga til að taka erindið til frekari meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og lauk athugun sinni á málinu. Hann tók þó fram að A væri heimilt að leita til sín að nýju að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins teldi hún sig enn rangsleitni beitta.